141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

málefni Dróma.

[10:50]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra nefndi fyrr í umræðunni að við ætluðum að nýta tímann vel. Ég ætla þess vegna að spyrja um mál sem hæstv. forsætisráðherra hefur haft mjög stór orð um og ég spurði ráðherrann út í 22. nóvember á síðasta ári. Það var um málefni Dróma.

Hæstv. forsætisráðherra hafði uppi mjög stór orð um Dróma, stærri orð en flestir aðrir stjórnmálamenn. Hún sagði að þetta hefði verið sorgarsaga frá upphafi, FME hefði fengið ótal kvartanir vegna viðskipta við Dróma, en það virtist engu breyta. Hæstv. forsætisráðherra taldi að skoða þyrfti að flytja eignasafnið frá Dróma til Seðlabankans eða Arion banka. Hæstv. forsætisráðherra sagði að ekki væri bjóðandi að viðskiptavinir Dróma fengju allt aðra þjónustu og fyrirgreiðslu en viðskiptavinir annarra lánastofnana.

Virðulegi forseti. Þetta var 22. nóvember á síðasta ári, fyrir rúmlega 90 dögum. Þá sagði hæstv. forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin og sérstök ráðherranefnd fjalla nú um málið og mun nefndin væntanlega skila niðurstöðu sinni á föstudaginn eða þriðjudaginn. Þá munum við koma með tillögur um aðgerðir, sem við verðum að gera, sem duga til að breyta þeirri stöðu sem uppi er hjá Dróma.“

Það eru 90 dagar síðan þetta var sagt. Hæstv. ráðherra hefur haft mörg orð um að þingið hafi ekki staðið sína plikt en þetta stendur algjörlega upp á ríkisstjórnina. Fyrirheit frá hæstv. forsætisráðherra voru mjög skýr og ég spyr þess vegna, virðulegi forseti: Hvar eru þessar aðgerðir? Það eru 90 dagar síðan hæstv. forsætisráðherra lofaði þeim.