141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

málefni Dróma.

[10:55]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra þarf ekki að hafa miklar áhyggjur af mér, hæstv. ráðherra þarf að hafa áhyggjur af viðskiptavinum Dróma sem hún lofaði úrlausn 22. nóvember. Þá fór hæstv. ráðherra yfir það að málið hefði verið mjög lengi í skoðun. Það var alveg skýrt hvað hæstv. ráðherra fannst um málið og hún tilgreindi dagsetningar á því hvenær tillögurnar um aðgerðir kæmu.

Nú kemur hæstv. ráðherra og undirstrikar í raun hversu vanhæf ríkisstjórnin er. Þetta er bara skólabókardæmi um það. Hæstv. ríkisstjórn hefur verið allt kjörtímabilið að taka á máli sem hún bjó til, því að svo sannarlega er ljóst að Drómavandamálið er algjörlega á ábyrgð þessarar ríkisstjórnar. Enginn skilur af hverju þessi leið var farin sem skaffar kröfuhöfum í Arion banka milljarða á ári. En miðað við orð hæstv. forsætisráðherra eru viðskiptavinir Dróma í miklum vanda.

Það er engin frétt, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin (Forseti hringir.) sé að skoða málið. Það er eitthvað sem við heyrum á hverjum einasta degi. Við héldum hins vegar, (Forseti hringir.) af því að hæstv. ráðherra lofaði aðgerðum á ákveðnum degi, að lyktir kæmu kannski í málið. Niðurstaðan: Það eru 90 dagar síðan og enn þá er verið að skoða það.