141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

afgreiðsla þingmála.

[11:07]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Heimamenn í Þingeyjarsýslum hafa beðið lengi eftir uppbyggingu á Bakka við Húsavík. Í fyrirspurn áðan sagði hæstv. forsætisráðherra að ýmis mál hefðu tafist í þingstörfum þessa viku og nefndi einmitt þau sem við eigum von á að ríkisstjórnin skili inn varðandi langþráða uppbyggingu á Bakka. Ég stóð í þeirri meiningu að það væri ríkisstjórnarinnar að leggja þessi mál fram en hæstv. forsætisráðherra virðist beina því að hæstv. forseta Alþingis að hún beiti sér fyrir því að þau komi fram.

Ég skal ekki segja, þetta er komið í þvílíka vitleysu að annað eins hefur varla sést. Mig langar að beina því til hæstv. forseta, vegna þess að hún virðist vera valdameiri en við þingmenn gerðum okkur grein fyrir, að hún beiti sér sérstaklega fyrir því að þessi mikilsverðu mál komi fyrir þingið (Forseti hringir.) við fyrsta tækifæri þar sem ríkisstjórnin virðist ekki vera fær um að koma þeim þangað sjálf.