141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[12:14]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Við höldum áfram að ræða frumvarp um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Ég sagði við 1. umr., og stend við það, að bara við að lesa frumvarpið er ljóst að hlutverk Ríkisútvarpsins er enn og aftur skilgreint allt of vítt.

Fyrst vil ég leyfa mér að segja að ég sakna þess að við höfum ekki nýtt tækifærið núna því að við vitum öll, ég þekki það af reynslu fyrri ára og fyrri missira, að skiptar skoðanir eru um Ríkisútvarpið. Það eru skiptar skoðanir um Ríkisútvarpið innan míns flokks um hvert hlutverkið eigi að vera og ég hef ekki dregið dul á það. Sumir vilja leggja það niður, aðrir vilja takmarka það verulega og skilgreina hlutverk þess mun skýrar en nú er gert í lögum og ég er þar á meðal. Sumir vilja ekki taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði á neinn hátt, sem gildir reyndar þvert á flokka, og síðan eru aðrir sem vilja takmarka aðkomu Ríkisútvarpsins að auglýsingamarkaði. Ég er líka í þeim hópi.

Mér finnst standa eftir að tækifærið til að reyna að skilgreina, skerpa og skapa meiri sátt um Ríkisútvarpið hafi ekki verið nýtt. Ríkisútvarpið er víða virt í samfélaginu og ég vil taka undir að þar er margt afar vel gert. Ég vil draga fram að að mínu mati er Ríkisútvarpinu vel stjórnað af hæfum stjórnendum og ekki síst af þeim sem stýrir því og ber ábyrgð á allri starfsemi þess. Það er ekki þar með sagt að maður geti ekki gagnrýnt ýmislegt sem fer fram innan dyra, en ég veit að menn reyna þó að rækja starf sitt bæði af metnaði og samviskusemi. Um það eru reyndar ekkert allir sammála og við sjáum þegar við lesum yfir gagnrýni á öldum ljósvakans eða á síðum ýmissa blaða að það er aldeilis ekki þannig að allir séu sáttir við Ríkisútvarpið. Ég held ekki heldur að allir séu alveg sáttir við til dæmis hlutverk Danmarks Radio, en það sem hefur gerst í Danmörku er að menn hafa þó náð pólitískri sátt um hvert hlutverk Danmarks Radio á að vera. Það er skýrt afmarkað umfram það sem er gert með hina sjónvarpsrásina í Danmörku sem er í eigu ríkisins og er TV2.

Ég sakna þeirrar umræðu. Ég ber að hluta til ábyrgð á því að hún hefði getað verið tekin með skarpari og markvissari hætti á sínum tíma, en þá var einfaldlega ekki hægt að tala við þáverandi sjórnarandstöðu sem lagði sig fyrst og fremst fram um það að stoppa til að mynda almenn lög um fjölmiðla sem snertu eignarhaldið. Það var forgangsröðun þeirrar stjórnarandstöðu og síðan að leggjast í almennt málþóf út af Ríkisútvarpinu og reyna að koma í veg fyrir það. Ég átti margar fallegar og yndislegar andvökunætur á mörgum þingum. Margt var upplýsandi en annað undirstrikaði að menn voru í einhverjum leik án þess að hafa endilega hagsmuni Ríkisútvarpsins að leiðarljósi og vera með framtíðarstarfseminni fyrir samfélagið í huga.

Það er önnur saga en tengist samt málinu. Ég vil undirstrika að í frumvarpinu er ekki verið að fara fram á breytingar sem mesta andstaða þáverandi stjórnarandstöðu var gegn og en hún var gagnvart Ríkisútvarpinu ohf., að breyta því í opinbert hlutafélag. Af hverju breyttum við því í opinbert hlutafélag? Einfaldlega vegna þess að það var ekki nokkurt viðlit að breyta meðal annars lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, það var ekki hægt að breyta starfsmannalögunum. Það var ekki hægt að koma með reglur sem tengjast meðal annars raunhæfum opinberum rekstri Ríkisútvarpsins nema fara í gegnum ohf. Fyrir utan að við trúðum því, og ég geri það enn, að það sé sú leið sem er best til þess fallin að undirstrika og hnykkja á mikilvægi Ríkisútvarpsins og um leið reyna að koma böndum á það og hlutverk þess. Það er ekki verið að gera í frumvarpinu og mér finnst það miður.

Ég vil draga fram að þrátt fyrir mikla umræðu í nefndinni og ýmislegt sem var hlustað á var ekki hlustað á að við gætum farið í að reyna að skilgreina betur hvert hlutverk Ríkisútvarpsins er. Enda er 3. gr. þannig að ég spurði hæstv. ráðherra á sínum tíma hvað félli ekki undir hlutverk Ríkisútvarpsins miðað við að greinin tekur næstum því tvær blaðsíður. Hvað fellur ekki undir hlutverk Ríkisútvarpsins? Því var ekki hægt að svara við 1. umr. og það er ekki enn þá hægt að svara því við 2. umr. hvað sé undanskilið.

Ég mun hins vegar á eftir fara yfir þær jákvæðu breytingar sem felast í meðförum eða tillögum nefndarinnar. Þar er reynt með óbeinum hætti að koma ákveðnu skikki á hlutverk og starfsemi Ríkisútvarpsins en þetta er það sem var hvað mest áberandi í athugasemdum flestra þeirra sem komu bæði fyrir nefndina og sendu henni umsögn varðandi Ríkisútvarpið. Hlutverkið er allt of víðtækt. Þrátt fyrir meiri kröfur um að setja aukin skil og skerpa á skilum milli almannaþjónustu og samkeppnisrekstrar er það enn þá þannig að hægt er fella allt undir orðið almannaþjónusta. Það er ekki hægt að segja neitt annað en að allt geti fallið undir hugtakið „almannaþjónusta“ og hlutverk Ríkisútvarpsins sem er skilgreint í 3. gr. frumvarpsins.

Það kom fram í máli ráðherra við 1. umr. að kveikjan að því að fara aftur af stað með breytingar á Ríkisútvarpinu væru meðal annars athugasemdir ESA varðandi þann þátt að skerpa þurfi mun betur á samkeppnisþætti Ríkisútvarpsins gagnvart þjónustunni sem við viljum að sé í almannaþágu, menningarhlutverkinu, að halda uppi öflugum fréttum, upplýsingum, fræðsluhlutverkinu o.s.frv. Það er að því leytinu jákvætt að verið er að reyna að skilja betur á milli fjölmiðlaþjónustunnar í almannaþágu annars vegar og samkeppnisstarfsemi Ríkisútvarpsins hins vegar með því að skerpa á hlutdeild auglýsingadeildarinnar. Það er reyndar verið að setja auglýsingadeildina í dótturfélag sem ég held að sé umhugsunarefni. Við höfum fengið mjög athyglisverðar ábendingar frá til dæmis Skjá einum og forsvarsmönnum hans sem telja að það sé ekki besta leiðin til að aðgreina samkeppnisreksturinn og auglýsingarnar frá því sem nefskatturinn á meðal annars að fjármagna.

Ég vil engu að síður ítreka að þarna eru ákveðnir þættir sem ég tel til bóta og ég vil fara örlítið yfir þá. Ég vil fyrst nefna það sem meiri hlutinn leggur til breytingu á sem varðar aðgang almennings að hinum mikla safnkosti Ríkisútvarpsins. Það er fagnaðarefni að meiri hlutinn leggur áherslu á aðgengi almennings að safnefni, hvort sem er til einkanota eða til viðskiptalegrar hagnýtingar sjálfstæðra framleiðenda. Það er að mínu mati jákvætt en á móti má gagnrýna Ríkisútvarpið fyrir að hafa ekki einfaldlega sjálft sett sér stefnu í því efni að frumkvæðisskyldan eigi líka að vera hjá Ríkisútvarpinu ef hún lýtur að því að koma til móts við eðlilegar þarfir almennings varðandi aðgengi að efni líkt og þessu.

Það kom fram mikil gagnrýni á að ekki væri vikið að sjálfstæðum framleiðendum íslensks efnis varðandi mismunandi afþreyingar- og menningarefni. Ég vil undirstrika að þjónustusamningurinn er tæki sem þarf að nýta betur. Það var verið að taka fyrstu skrefin á sínum tíma og ég er sannfærð um að þjónustusamningurinn er skilvirkt og hreyfanlegt tæki sem ráðherra hverju sinni á að nýta sér og ekki síst þegar hann er kominn með ákveðinn stuðning af hálfu þingsins og nefndarinnar til að gera það. Þess vegna tel ég fagnaðarefni að það sé undirstrikað í nefndaráliti meiri hlutans að eðlilegt sé að hlutfall frá sjálfstæðum framleiðendum af útsendu efni á kjörtíma, og það er rétt að draga það fram, skuli að lágmarki vera 10%, en mér skilst að það sé um 6% um þessar mundir. Það er einn af lykilþáttunum varðandi rekstur Ríkisútvarpsins, einn af þáttunum sem fær fólk til að segja: Já, við viljum ríkisútvarp. Það er af því að við viljum sjá aukna framleiðslu íslensks efnis. Það er hluti af því að þjóðin sættist við að fjármunum sé varið til Ríkisútvarpsins.

Það er alveg rétt sem hefur verið bent á, — áður en ég held áfram með ákveðna þætti sem ég tel að séu til framdráttar — af hverju höfum við ekki farið nákvæmlega í að skerpa betur á hlutverki Ríkisútvarpsins og spurt spurningarinnar hvort Ríkisútvarpið eigi að þenjast út. Á það að fara úr 3 milljörðum í 5 milljarða á nokkrum árum og af hverju er það gert? Fáum við aukið framleitt íslenskt efni á kjörtíma? Nei, við höfum ekki fengið það fram til þessa þrátt fyrir aukningu. Sjáum við til dæmis að fréttum af landsbyggðinni sé sinnt með markvissari hætti? Við sjáum frábæra þætti sem hafa verið sendir út sem góðir starfsmenn Ríkisútvarpsins hafa verið að reyna að tryggja, en ég get ekki séð að aukin umfjöllun Ríkisútvarpsins í fréttatíma sé í tengslum við landsbyggðina. Það er þáttur sem menn hafa sagt að sé hluti af því að við starfrækjum ríkisútvarp hér, enda er nefndin sérstaklega að taka á þeim þætti og viðurkenna þar með að Ríkisútvarpið eigi að geta gert betur hvað varðar landsbyggðina.

Ég er hins vegar ósammála því sem kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans og ég veit að ég er kannski ekki alveg í takt við hluta af þeim þingmönnum sem tilheyra landsbyggðinni í mínum flokki. Ég tel að ef við skilgreinum hlutverk Ríkisútvarpsins mjög skýrt og afmarkað, m.a. með það í huga að það eigi að sinna landsbyggðinni betur, fréttum af landsbyggðinni, af hinu daglega lífi og því sem er að gerast þar, eigum við samt ekki að segja Ríkisútvarpinu fyrir verkum um hvar og hvort það eigi að koma upp fastri starfsemi. Sú starfsemi getur þess vegna verið öll suðvestan lands eða fyrir norðan eða austan, hvar sem er svo lengi sem menn starfrækja það hlutverk sitt og rækja það af samviskusemi að efla íslenska dagskrárgerð, sinna fréttaflutningi af landsbyggðinni o.s.frv.

Það má alveg undirstrika að Stöð 2 hefur staðið sig afar vel hvað varðar fréttaflutning af landsbyggðinni. Það er greinilegt að Kristján Már Unnarsson, sá ágæti fréttamaður, fer reglulega og markvisst út á landsbyggðina, kemur með merkilegar fréttir og sendir þær út á öldum ljósvakans. Það má líka draga fram að með tilkomu Magnúsar Hlyns fréttaritara á Suðurlandi á Stöð 2 hefur fréttaflutningur af því svæði aukist þannig að eitthvert samhengi er á milli þar. Ég tel hins vegar mikilvægt að yfirstjórn Ríkisútvarpsins hverju sinni hafi það í hendi sér hvernig hún vilji haga rekstri fyrirtækisins. Við krefjumst þess að fyrirtækið sé rekið á hagkvæman hátt og að farið sé vel með fjármagn sem kemur úr ríkissjóði en um leið að við setjum þá ekki þær aukakvaðir á Ríkisútvarpið að vera með starfsstöðvar úti um allt land ef það getur með öðrum hætti miðlað fréttum af landsbyggðinni. Ég tel því mikilvægt að treysta á rekstrarlegt sjálfstæði yfirstjórnar Ríkisútvarpsins.

Ég ætla halda áfram að hæla Páli Magnússyni sem allir vilja hnýta í núna eða þá í aðra starfsmenn Ríkisútvarpsins en ég ætla ekki að taka þátt í því. Með því er ég ekki að segja, eins og kom fram hjá mér áðan, að ég sé gagnrýnislaus þegar kemur að Ríkisútvarpinu og efnisumfjöllun, pólitískri sem annarri, en það verður að benda á það sem er vel gert. Ríkisútvarpið hefur verið að skila hagnaði, verið réttum megin við núllið á síðustu missirum og hluti af því er að það er sjálfstæðara en áður varðandi rekstur og hefur skýrari ábyrgð varðandi hvernig það eigi að skila og haga rekstri sínum, þannig að það sé sagt. Ég get ekki betur séð en margt jákvætt sé í þróun starfsemi Ríkisútvarpsins.

Það eru náttúrlega umbreytingartímar fram undan og það mun reyna aftur á Ríkisútvarpið að sinna skyldum sínum. Það er komið inn á það í meirihlutaáliti allsherjar- og menntamálanefndar hvernig það eigi að starfrækja skyldur sínar. Ég vil sérstaklega fagna þeirri breytingu sem varð í meðförum meiri hluta nefndarinnar að tekið var tillit til þess lykilþáttar sem við höfum meðal annars ýtt undir varðandi starfsemi Ríkisútvarpsins og snertir hlutverk þess, þ.e. sjálfstæði Ríkisútvarpsins í dagskrárvali, dagskráruppbygginu og fréttauppbyggingu. Það má ekki vera þannig að menn ætli sér héðan af þingi að fara inn með krumluna til að hafa skoðun á ritstjórnarlegu sjálfstæði Ríkisútvarpsins. Við verðum einfaldlega, fyrst við höfum ríkisútvarp, að móta því reglur, setja því skýrar reglur og síðan er það Ríkisútvarpsins að sjá til þess að það sé innan þess ramma sem þingið markar. Hluti af því er mikilvægi þess að það geti verið ritstjórnarlega sjálfstætt en ekki á pólitísku forræði.

Það leiðir náttúrlega hugann að öðru máli sem er allt annað og er sú lenska hjá yfirvöldum núna, bæði hjá stjórnmálamönnum sem styðja ríkisstjórnina og eru í henni, að skipta sér af sjálfstæðum stofnunum. Ég er eðlilega með inngrip innanríkisráðherra í sjálfstæði ákæruvaldsins í huga. Það mál sem og þetta undirstrikar að hversu mikið sem við stjórnmálamenn viljum skipta okkur af öllum sköpuðum hlutum er það okkar að móta reglurnar, setja rammann og síðan að sjá til þess að þar til bærar stofnanir, Ríkisútvarpið, ákæruvaldið eða hver sem það er hverju sinni, hafi burði og möguleika til að sinna því markmiði og því hlutverki sem þeim er skipað í stjórnsýslu okkar og stjórnskipan.

Þess vegna tel þá breytingu meiri hlutans mikilvæga að undirstrika, og skilja vel, athugasemdir sem komu meðal annars frá nefnd sem er að fara yfir fjölmiðla undir forustu Finns Becks. Engu að síður er mikilvægt að menn árétti að óumdeilt sé að Ríkisútvarpið hafi ritstjórnarlegt sjálfstæði. Það er fagnaðarefni og rétt að leggja áherslu á það. Ég vil líka draga það sérstaklega fram sem ég tel jákvætt. Skrefin í þeim efnum eru í raun öll jákvæð þótt þau séu ekki stór að mínu mati af því að ég hef aðrar skoðanir á hlutverki Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði en margir aðrir. Engu að síður er sá kafli mikilvægur í nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar sem er á bls. 4 og fjallar um viðskiptaboð. Ég vil sérstaklega fagna þeim skilningi sem var mætt af hálfu meiri hluta nefndarinnar við að reyna að koma með aðeins harðari og skarpari ramma hvað varðar viðskiptaboðin.

Við fáum vissulega ábendingar frá öðrum aðilum á markaði eins og 365 miðlum, frá Skjánum og öðrum sem reyna af veikum mætti að starfrækja sjálfstæða fjölmiðla. Þeir benda á að þýðingarlaust sé varðandi auglýsingarnar að setja þann ramma sem er verið að setja hér því að Ríkisútvarpið fylli hvort sem er ekki upp í tímarammann. Gott og vel. Það er engu að síður verið að reyna að gera það svona. Hitt er síðan hvernig við ætlum að senda út bæði auglýsingar, viðskiptaboð og síðan varðandi kostunina sem ég held að sé jákvætt skref í því efni.

Menn taka tillit til þarfa íþróttahreyfingarinnar og ákveðinna atriða sem þurfa að njóta skilnings hvað varðar kostun en það er allt saman þrengt frá núverandi umhverfi sem ég tel til mikilla bóta og á að auðvelda m.a. sjálfstæðum fjölmiðlum að halda uppi starfsemi til lengri og skemmri tíma. Þetta eru lítil skref en táknræn. Ég vil fagna þeim og líka því hvernig er verið að reyna að takmarka viðskiptaboð í nefndinni, annars vegar rof á kostun og hins vegar á útsendingu, að það verði ekki gert nema í mjög sérstökum tilvikum og tilfellum sem er tilgreint í meirihlutaáliti nefndarinnar, þ.e. Ólympíuleikarnir, heimsmeistara- og Evrópumót í knattspyrnu- og handknattleik og Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, þar með talin Söngvakeppni Sjónvarpsins. Það eru þættir sem meiri hluti nefndarinnar dregur fram að hægt sé að rjúfa. Síðan segir meiri hlutinn það álit sitt, sem ég tel afar mikilvægt að menn hlusti á, ekki síst hjá Ríkisútvarpinu, að undanþáguákvæðið beri að túlka þröngt og eigi fyrst og fremst að ná til þeirra viðburða sem að framan greinir. Það tel ég jákvætt skref og mér finnst rétt að benda á það.

Ég tel mikilvægt í því samhengi að draga fram skoðanir, og þá ekki bara mínar, hvað varðar auglýsingar Ríkisútvarpsins og aðkomu þess að auglýsingamarkaði. Ég hef margoft sagt að ég hefði viljað sjá mun meiri takmörkun á aðkomu Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Ég hef meðal annars bent á fyrirkomulagið í Þýskalandi hjá ARD og ZDF þar sem má senda út auglýsingar á ákveðnum tíma, annað er ekki heimilt.

Síðan er auðvitað það sem kemur fram í máli þeirra sem komu fyrir hönd Blaðamannafélagsins. Hjálmar Jónsson og Sigurður Már Jónsson, formaður og varaformaður félagsins, komu fyrir hönd þess og sögðu skoðun sína á auglýsingahlutdeild Ríkisútvarpsins. Þeir sögðu skýrt að ótækt væri að hafa Ríkisútvarpið á auglýsingamarkaði og að þeir hefðu viljað sjá það tekið algjörlega út af honum, eins og þeir orðuðu það, og tækifærið nýtt til að efla fjölmiðla á einkamarkaði.

Þetta er ekki eins og menn halda alltaf, að það séu bara 365 miðlar og ekkert annað fyrirtæki. Það er líka Skjárinn og ekki síst eru það fjölmiðlar sem við förum að fá núna í gegnum hina nýju miðla, netið og fleiri leiðir, og herja á auglýsingamarkaðinn. Auglýsingamarkaðurinn er bara einn stór pottur. Það er ekkert þannig að með tilkomu nýrra miðla muni hann stóraukast. Það er einn pottur sem fyrirtækin hafa að spila úr til að auglýsa og þau reyna síðan að sjá hvar þeirra hag er best borgið varðandi útbreiðslu auglýsinga.

Ég vil að hluta til taka undir það sem Blaðamannafélag Íslands segir, að eiginlega sé tækifærið til að efla frjálsa fjölmiðlun vannýtt. Þeir bentu á að að mörgu leyti er búið drepa niður umræðu um samfélagsmál í öðrum fjölmiðlum en í Ríkisútvarpinu en að sjálfsögðu finnast slíkir þættir að hluta til, m.a. á Bylgjunni. Þeir undirstrika að það að hafa þetta fyrirkomulag á auglýsingamarkaði ógni fjölbreytni í fjölmiðlun frekar en að auka hana. Þeir lögðu áherslu á að þeim fannst tækifærið vannýtt til að efla og styrkja frjálsa fjölmiðla varðandi það að styrkja innviði samfélagsins og efla umræðuhefðina í fjölmiðlum.

Ég talaði áðan um Danmarks Radio í því samhengi en þáverandi menningarráðherra Danmörku, Per Stig Møller dró einmitt fram hvers vegna menn eru með Danmarks Radio. Ég sakna þess að við höfum ekki farið í nákvæmlega þá spurningu af hverju við erum með Ríkisútvarpið. Menn reyna að svara því að mínu mati með frekar loðnu ákvæði um hlutverk Ríkisútvarpsins. Hvers vegna erum við með Ríkisútvarpið, hversu réttlætanlegt er að fjármagn frá almenningi fari í það og o.s.frv.? Ég hef að hluta til komið inn á að ég vil sjá eflingu menningarhlutverks í Ríkisútvarpsins, sjá því beint í skarpari farveg og þá er ég þar með talið að ræða og koma inn á aukið efni frá sjálfstæðum framleiðendum, en að sjálfsögðu erum við líka að tala um menningarefni sem undirstrikar hvernig íslenskt samfélag er.

Það eru til að mynda ýmsir sem vilja taka út messuna á sunnudögum á Rás 1 en ég held að það sé vanráðið af hálfu Ríkisútvarpsins af því að það er hluti af því sem er að gerast í íslensku samfélagi. Ég er viss um að ef Ríkisútvarpið tæki messuna út mundi enginn annar útvarpa því efni. Það er hluti af okkar menningu að miðla hvort sem það eru messur eða sinfóníutónleikar en Ríkisútvarpið hefur átt í afar farsælu samstarfi hvað varðar að útvarpa sinfóníutónleikum. Það má svo sannarlega nefna margt fleira eins og íslenska tónlist. Allt þetta hefðum við átt að meta til að reyna að fá fólk í lið með okkur og til að skilja af hverju það er nauðsynlegt að hafa starfandi ríkisútvarp. Ég er einn af þeim sjálfstæðismönnum sem telja mikilsvert að Ríkisútvarpið sé starfandi en það verður að setja því skorður og skarpari ramma en er verið að gera.

Það má kannski segja að það sé ákveðin þróun og það felst jákvæð þróun í breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar, það er ekki spurning. En ég hefði gjarnan viljað eiga þetta samtal áður en ráðherra lagði frumvarpið fram. Það einkennist líka af mikilli pólitískri nálgun að því leytinu til að verið er, sem er að mínu mati afar misráðið, að setja starfsmenn í opinber hlutafélög. Það þýðir meðal annars að breyta þarf hinum almennu lögum um opinber hlutafélög því að menn gerðu einfaldlega ekki ráð fyrir því að starfsmenn ríkisfyrirtækja ættu að hafa sjálfkrafa aðgang að stjórn Ríkisútvarpsins.

Það er sem betur fer líka búið að takmarka það í þessu máli. Þeir hafa málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt. Ég held að það hefði einfaldlega verið betra að halda áfram að skerpa á því sem stjórn Ríkisútvarpsins hefur þó verið að gera — alla vega til að byrja með en ég ætla ekkert að tjá mig um núverandi stjórn Ríkisútvarpsins sem að mínu mati er meira pólitískt skipuð en á umliðnum missirum — af því að meginhlutverk stjórnar Ríkisútvarpsins er að hafa eftirlit með fjármunum og rekstri þess. Það er ekki hlutverk þess að vera framlenging á pólitískum ráðherra, hver sem hann er hverju sinni, hvað eigi að vera í dagskrárefni Ríkisútvarpsins. Ég er ekki að segja að stjórnin eigi ekki að hafa einhverjar hugmyndirnar um hverjar stóru línurnar eru. Stjórn Ríkisútvarpsins á að hafa skoðun á því að efla og auka hlutdeild sjálfstæðra framleiðenda í dagskrá þess.

Stjórn Ríkisútvarpsins getur líka haft skoðun á því að auka aðgengi almennings að þeim magnaða safnkosti sem þar er, en hún á ekki, þrátt fyrir að menn greini mikinn vilja til þess af hálfu núverandi stjórnvalda eins og í öðrum málum, að hafa bein afskipti af dagskrá Ríkisútvarpsins, hverjir það eru sem eru ráðnir þangað o.s.frv. Það var meðal annars þess vegna sem var farið í þær breytingar á sínum tíma að framkvæmdastjóri sjónvarpsins og útvarpsins voru ekki, og eru ekki lengur, pólitískt skipaðir af ráðherra og ég held að menn hafi einmitt fagnað því á sínum tíma.

Herra forseti. Ég held að margt sé til bóta af því sem kemur frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar. Ég sakna þess þó, eins og ég hef komið inn á, að menn setja ekki skarpari ramma utan um Ríkisútvarpið. Ég óttast enn þá 16. gr. frumvarpsins. Ef menn hefðu lesið hana og túlkað samkvæmt orðanna hljóðan hefði Ríkisútvarpinu að öllu óbreyttu verið falið alveg gríðarlega víðtæk heimild til að koma að og setja á fót ýmsa nýja fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu, af því að eins og við vitum miðað við 3. gr. er almannaþága beinlínis allt sem hægt er að starfrækja innan Ríkisútvarpsins þar sem það er ekki nægilega vel skilgreint.

Það er rétt að menn átti sig á því, af því að bæði þessi ræða og ræða flutningsmanns meiri hluta nefndarinnar er hluti af lögskýringargögnum, að sem betur fer er 16. gr. afar þröngt túlkuð og það kom skýrt fram í meðförum nefndarinnar að hún er ætluð við afar takmarkaðar aðstæður. Menn vilja á hinn bóginn ekki takmarka heimild Ríkisútvarpsins til að fara út í nýja tækniþjónustu eins og útvarp á hinum Norðurlöndunum hefur gert. Það má ekki verða til þess að Ríkisútvarpið fari bakdyramegin, fari einhverja fjallabaksleið til að setja á laggirnar hlut sem snertir samkeppnisrekstur í útvarpi eða sjónvarpi. Það má alls ekki gerast og mér finnst meiri hluti nefndarinnar vera að reyna að koma til móts við þau sjónarmið og hann undirstrikar líka þrönga túlkun ákvæðisins.

Ég vil taka undir þá túlkun. Ég tel ekkert óeðlilegt að Ríkisútvarpið geti í afar takmörkuðum mæli og undir eftirliti Fjölmiðlastofu farið út í ákveðna tækniþróun en ekki þannig að hún stangist á við það sem fellur undir samkeppnisrekstur. Það má ekki gerast.

Það er ýmislegt eftir hvað varðar umfjöllun mína um Ríkisútvarpið og ég mun koma að því síðar. Ég vil almennt séð þakka fyrir vinnuna í nefndinni. Ég er ósammála þeirri nálgun sem er sett fram í frumvarpinu en eftir stendur þó að við reyndum að lagfæra það og það var gert að hluta til í nefndinni. Ég hefði hins vegar kosið að við hefðum skerpt á hlutverki Ríkisútvarpsins og tekið stóru umræðuna um af hverju við erum með Ríkisútvarpið og hversu umfangsmikið það eigi að vera á hljóðvarps- og sjónvarpsmarkaði. Sú umræða er hins vegar enn þá eftir. Hún mun ekki fást í gegn með því að menn stundi málþóf hér. Menn ættu miklu frekar að reyna að leiða saman hesta sína í málinu og fá alla stjórnmálaflokka að því til að móta og skerpa á hlutverki Ríkisútvarpsins svo það verði ekki þannig að starfsmenn Ríkisútvarpsins eða einstakir þingmenn, ekki síst stjórnarflokkanna, ráði því hvert Ríkisútvarpið er að fara og hvernig það þróast. Til þess eru hagsmunirnir í húfi allt of miklir. Það getur náðst sátt um Ríkisútvarpið (Forseti hringir.) ef það hefur skýrt hlutverk og skýrt markmið. Það er ekki nægjanlega skýrt í málinu sem við ræðum hér.