141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

álit framkvæmdastjórnar ESB um að verðtryggð lán séu ólögleg.

[13:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa umræðu. Við í fjármála- og efnahagsráðuneyti og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti erum að fara yfir þau atriði sem koma fram í bréfi sérfræðinga framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um möguleg áhrif tilskipana þess á framkvæmd verðtryggingar hér á landi. Á þessu stigi er erfitt að draga einhverjar ákveðnar ályktanir úr ræðustól Alþingis um lögmæti framkvæmdarinnar við veitingu verðtryggðra lána hér á landi út frá þessu tiltekna bréfi sérfræðinga framkvæmdastjórnarinnar, enda er skýrt tekið fram í bréfinu að aðeins sé um að ræða álit viðkomandi sérfræðinga á þeim tæknilegu spurningum sem settar eru fram í erindi til framkvæmdastjórnarinnar og að í tilfelli Íslands sé bindandi túlkun á lögmætri innleiðingu tilskipana ESB í íslenska löggjöf ekki í höndum Evrópusambandsins. Þótt rýni ráðuneytanna sé ekki alveg að fullu lokið get ég í fljótu bragði dregið eftirfarandi saman:

Þær tilskipanir sem hér er um að ræða, eins og hv. þingmaður kom inn á, eru í fyrsta lagi fyrsta neytendalánatilskipunin frá 1987. Þá er það önnur neytendalánatilskipunin frá 2008 sem leysir þá fyrstu af hólmi. Í þriðja lagi er tilskipun um óréttmæta skilmála í neytendasamningum frá 1993 og tilskipun um óréttmæta viðskiptahætti frá 2005. Öll þessi löggjöf heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið en engu að síður heyrir löggjöfin um vexti og verðtryggingu undir fjármálaráðuneytið og þannig komum við að þessari umræðu.

Umfjöllunin í bréfi sérfræðings framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um framkvæmd verðtryggingar gagnvart neytendum lýtur fyrst og fremst að annarri neytendalánatilskipuninni, þeirri frá 2008. Málið snýst ekki um það hvort verðtryggingin sem slík sé ólögmæt, enda er hún það ekki samkvæmt tilskipunum Evrópusambandsins. Hér er því um að ræða álitaefni um upplýsingaskyldu lánveitanda til lántaka í þágu neytendaverndar þegar verðtryggð lán eru veitt samkvæmt íslenskum lögum um neytendalán. Samkvæmt neytendalánatilskipun Evrópusambandsins á að taka verðbólgu eins og hún er á þeim tíma með í útreikning á heildarlántökukostnaði vegna lána sem falla undir tilskipunina og þar af leiðandi einnig við útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar. Miða skal við að verðbólga haldist óbreytt út lánstímann.

Í bréfinu er tekið fram að samkvæmt tilskipuninni um óréttmæta skilmála frá 1993 sé verðtrygging heimil en kveðið er á um að neytanda skuli kynntir lánaskilmálar tímanlega og þeir skýrðir með verði og helstu einkennum. Skilmálar skulu skýrir og á skiljanlegu máli og það felur meðal annars í sér að vísitölutrygging skal útskýrð sérstaklega.

Evrópusambandið hefur staðið vaktina í neytendavernd og persónulega tel ég mjög mikilvægt að lántakendur fái sem fyllstar upplýsingar þegar þeir taka ákvörðun.

Varðandi viðbrögðin sem snúa að okkur í þessum sal er mikilvægast að nú er unnið að innleiðingu annarrar neytendalánatilskipunarinnar sem á að tryggja neytendum aukna vernd og upplýsingar. Samkvæmt frumvarpinu er verið að herða mjög kröfur um upplýsingaskyldu lánveitanda og þá er lagt til að tekið verði sérstaklega fram að lögin um neytendalán nái til lánveitinga Íbúðalánasjóðs, en slíkt ákvæði hefur ekki verið þar áður.

Vandinn sem við er að glíma varðandi fulla upplýsingagjöf til íslenskra lánveitenda er hve óstöðugt verðmæti gjaldmiðilsins er. Í ljósi sögunnar um sírýrnandi verðgildi krónunnar er hlálegt ef neytendum er boðið að taka lán til 40 ára og líklegur kostnaður er miðaður við verðbólgumarkmið Seðlabankans eða eitthvað þar rétt fyrir ofan. En kannski hafa fjármálastofnanir hreinlega verið of feimnar við að birta neytendum raunhæfari sviðsmyndir svo þær verði ekki sakaðar um að tala niður krónuna, eins og menn gera gjarnan í þessum sal.

Þetta mál snýst nefnilega ekki síst um hvort það eigi að krefjast þess að neytendum sé sagt satt um þann efnahagslega veruleika sem við búum við. Að mínu mati eiga þeir skýlausan rétt á því og við þurfum því að innsigla það með nýjum lögum um neytendalán. Ég mun ekki kveða upp úr um það hér hvort brotið hafi verið gegn íslenskum lögum um neytendalán frá 1994 og eftir breytingarnar sem gerðar voru á lögunum árið 2000. Það er einfaldlega verkefni dómstóla. En sé mögulegt að flýta málum gegnum störfum hlaðna dómstóla er það æskilegt að mínu mati vegna þess að óvissan er óþolandi fyrir neytendur.

Varðandi þá spurningu hvort eitthvað það hafi gerst nú sem kallar á bein inngrip í gildandi lánaskilmála, t.d. með þaksetningu á verðtryggingu, er því til að svara að þetta er auðvitað mjög skammur fyrirvari en við þurfum að fara vel yfir alla þætti og ég er tilbúin að gera það. Það er auðveldara að gera þetta með ný lán en flóknara með núgildandi lán og við förum vandlega yfir það.

Þessi umræða er fróðleg og hún er líka mjög nauðsynleg. Hún afhjúpar þá stöðu sem íslenskir neytendur eru í vegna þess umhverfis sem gjaldmiðill okkar býr þeim (Forseti hringir.) og ég held að við hér inni ættum að læra eitthvað af því og fara að horfa á rót vandans en ekki afleiðingarnar sem við erum alltaf að ræða í þessum sal. (Forseti hringir.) Ég er sammála því, ég er á móti verðtryggingunni en við erum ekki sammála um hvaða leiðir eigi að fara til að afnema hana. (Forseti hringir.) Við í Samfylkingunni höfum lagt til raunhæfa leið og ég kalla eftir því að aðrir flokkar geri það líka.