141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

álit framkvæmdastjórnar ESB um að verðtryggð lán séu ólögleg.

[14:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þessa fínu umræðu. Hún hefur verið mjög áhugaverð og það sem mér finnst kannski standa upp úr er hvað sé í boði. Hv. þm. Margrét Tryggvadóttir spurði hvernig við viljum hafa þetta. Það sem hefur verið í boði fyrir íslenska lántakendur í dag til að koma sér upp þaki yfir höfuðið eru þrenns konar lán. Í fyrsta lagi eru gengistryggð lán og við vitum öll hvernig fór með þau. Í öðru lagi eru verðtryggð lán og við vitum hvernig það lítur út hjá íslenskum heimilum og hefur gert. Það byrjaði ekkert með hruninu heldur var orðið vandamál löngu fyrr. Síðan erum við núna með nýja vöru á markaði sem heitir óverðtryggð lán og við vitum alveg, og menn heyra það hér og eru með varnaðarorð uppi um það, að gríðarlega óvissa ríkir um hvernig þau munu þróast. Þá ekki síst afborganirnar fyrir íslensk heimili vegna þess að þær munu velta algjörlega á því hvernig krónan stenst álagið á næstu árum.

Frú forseti. Þessir þrír vöruflokkar eru það sem hefur verið í boði fyrir íslenska lántakendur. Eigum við ekki í sameiningu að ræða rót vandans? Eigum við að fara að gera það? Hér er nefnt að allir vilji afnema verðtrygginguna. Ég er sammála því. Við höfum lagt fram leið til þess sem snýr að því að ráðast að rót vandans og ræða upptöku nýs gjaldmiðils. (Gripið fram í.) Menn hafa talað um að það sé orðið eins og illa lyktandi snuð. (Gripið fram í: Já.) Það má vel vera, frú forseti. Það má vel vera að hv. þingmanni finnist það en mér þykir líka afar óábyrgt af Framsóknarflokknum að vera búinn að henda þeim möguleika algjörlega út af borðinu þegar einungis er um framangreinda þrjá möguleika að ræða fyrir íslenska neytendur. Hvað annað ætlar hv. þingmaður að bjóða upp á? Það hefur aldrei komið fram. Það sem Framsóknarflokkurinn býður upp á við afnám verðtryggingar er það sem kom fram hjá formanni flokksins, hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, að setja það í nefnd og láta menn komast að niðurstöðu fyrir árslok 2013 um hvernig þeir ætla að afnema verðtrygginguna. (Gripið fram í: Er það ekki ágætt?)

Frú forseti. Þetta er hætt að vera boðlegt. Við þurfum að fara að ræða málið eins og fólk, það rótarmein sem um er að ræða og er séríslenskt (Forseti hringir.) fyrirbæri, til að við getum farið að bjóða upp á vöru sem íslenskir neytendur geta notað og unga fólkið okkar (Forseti hringir.) sér fram á að vilja og að það geti komið sér upp þaki yfir höfuðið hér á landi án þess að fara í eins djúpa skuldsetningu og umhverfið býður okkur upp á nú.