141. löggjafarþing — 86. fundur,  25. feb. 2013.

vandi Íbúðalánasjóðs.

[15:02]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Á opnum fundi hv. efnahags- og viðskiptanefndar í morgun kom fram hjá seðlabankastjóra Íslands að viðskiptamódel Íbúðalánasjóðs fái ekki staðist. Ég benti á það árið 2004 þegar þetta var tekið upp og varaði við því sem mundi gerast ef raunvextir á markaði færu niður í 2%. Þá var mér sagt að það mundi ekki gerast eða ólíklega. Nú hefur það gerst að raunvextir eru komnir undir 2% á markaði og Íbúðalánasjóður er í miklum vanda. Ég vil spyrja atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra hvernig við getum brugðist við þessum vanda Íbúðalánasjóðs sem lánar mikið til íbúðakaupa o.s.frv.

Einnig kom fram á fundinum að virkni stýrivaxta hjá Seðlabankanum er margþætt. Í fyrsta lagi auka þeir vexti á krónueign útlendinga hér á landi, svokallaða snjóhengju. Það veldur því að útlendingar geta fyrir bragðið flutt út meira af gjaldeyri sem þýðir að gengi krónunnar veikist meira en ella sem aftur veldur verðbólgu en það er öndvert við þau áhrif sem menn ætla að ná fram. Að auki var talað um að verðtryggðu lánin væru að sjálfsögðu að mestu leyti ónæm fyrir stýrivaxtahækkunum Seðlabankans. Þau einu áhrif sem okkur var sagt frá var að þetta hefði áhrif á innstæður sem hafa minnkað verulega mikið, hættulega mikið að mínu mati, en Seðlabankinn virðist líta á það sem árangur stefnu sinnar að innlán heimila í landinu og innlán almennt minnki vegna þeirra háu stýrivaxta sem við höfum í dag. Er hæstv. ráðherra sammála því að þetta eigi að vera áhrif stýrivaxta?