141. löggjafarþing — 86. fundur,  25. feb. 2013.

skuldavandi vegna verðtryggðra lána.

[15:12]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég held að þessi mál hljóti öll að vera til skoðunar öllum stundum, hvernig við getum komið til móts við það fólk og þær fjölskyldur sem eiga í vanda vegna mikilla skulda og eru að missa eignir sínar af þeim sökum. Ekki eru neinar ákveðnar aðgerðir á vinnsluborðinu hvað það snertir núna. Hins vegar höfum við verið með á vinnuborði ríkisstjórnarinnar leiðir til að létta skuldavandanum og verið að líta til ýmissa þátta hvað það snertir. Ég held að við hljótum öll að vera sammála um það í þessum sal að engar almennar patentlausnir eru á þeim málum en ég vil taka undir með hv. þingmanni að ef við getum sameinast eða fundið leiðir til að létta á vanda þeirra sem í hlut eiga þá er ég og mitt ráðuneyti opið fyrir slíku. Ég auglýsi eftir því að fá slíkar hugmyndir upp á borðið. Við erum stöðugt með þessi mál í skoðun og endurskoðun og ég held að það eigi við um þingheim allan. Þetta er ekki flokkspólitískt mál í því tilliti heldur þverpólitískt og ég lýsi því einfaldlega yfir að við erum opin fyrir öllum góðum hugmyndum hvað þetta snertir.