141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

umræða um 2. dagskrármál.

[16:21]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil gera athugasemdir við að málið verði ekki á dagskrá. Komið hafa fram mjög misvísandi upplýsingar um það í umræðunni, bæði á síðasta fundi og eins nú, hvaða ástæður liggja að baki því að málið sé tekið af dagskrá. Annars vegar vísar þingflokksformaður Vinstri grænna til einhverra atvika sem áttu sér stað síðasta miðvikudag varðandi viðræður og það hefði haft einhver áhrif á hvað er að gerast hér á mánudegi. Ég skil ekki þá umræðu.

Á hinn bóginn kemur ráðherrann hingað upp og segir að ekki gangi að málið sé til umræðu áður en frumvarp hans komist á dagskrá þingsins. Ef það er hin rétta ástæða er það ekki boðlegt, herra forseti. Ég get ekki sætt mig við það að ráðherrann komi hér fram og segi það ekki ganga að mál sem afgreitt er frá nefnd þar sem á nefndaráliti eru þingmenn meðal annars úr hans eigin flokki — menn í nefndinni komu sér saman um að afgreiða málið og vilja fá það hingað inn í umræðuna — að ráðherrann komi og heimti það út vegna þess að hann er móðgaður yfir því í hvaða röð (Forseti hringir.) þingnefndin taki mál út.