141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 229/2012 um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn.

566. mál
[22:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla rétt aðeins að koma inn á þessi mál. Hæstiréttur dæmdi gengistryggðu lánin ólögleg. Við það lækkaði lánskostnaður þeirra sem þau skulduðu verulega og eignir þeirra löguðust mikið vegna þess að þau lán höfðu í fyrsta lagi hækkað óskaplega með fallandi gengi, sérstaklega eftir hrun. Það var dæmt ólöglegt fyrst. Síðan voru sett þessi frægu lög um að notast við íslenska krónu og íslenska vexti, en svo felldi Hæstiréttur aftur dóm og sagði að notast ætti við íslenska krónu en erlenda vexti, vexti sem voru á láninu og miðuðust við allt aðra mynt, oft á tíðum jen eða svissneska franka. Þeir vextir eru miklu lægri. Þá breyttust þessi lán í það að verða, vil ég segja, hagstæðustu lán Íslandssögunnar með föstum 2–3% vöxtum, óverðtryggt, í ákveðinn tíma. Eftir þann tíma tóku svo við hefðbundin lánskjör sem menn gátu valið um.

Þetta er staðan sem aðrir fasteignakaupendur standa frammi fyrir. Þeir sem tóku verðtryggð lán eru í reynd miklu verr settir vegna þess að þau lán hafa hækkað eins og hefðbundið er hér á landi miðað við verðtryggð lán. Það fólk eygir ákveðna von í þeim umræðum sem hafa átt sér stað um að verðtryggð lán geti hugsanlega verið ólögleg eins og gengistryggðu lánin.

Ég geri ráð fyrir því að einhverjir hafi miklar væntingar um að verðtryggð lán verði dæmd ógild frá ákveðnum tíma. Ég tek ekki undir þær væntingar enda tel ég að það yrði mikil umturnun á íslensku þjóðfélagi. Þannig er að 25% heimila eru leigjendur sem ekki skulda vegna íbúðarhúsnæðis og falla þar af leiðandi ekki undir þessi lög. Þeir fengju því ekkert endurgreitt. Um 21% eru í þeirri stöðu að búa í skuldlausri eign og það fólk fengi ekki neitt. Báðir hóparnir yrðu hins vegar að greiða, nettó, til hinna sem fengju greitt úr ríkissjóði vegna þess að þetta er sennilega mestallt eða mikið til gegnum Íbúðalánasjóð sem er með ríkisábyrgð samkvæmt fjáraukalögum eða fjárlögum og lendir á skattgreiðendum.

Ef verðtryggingin yrði dæmd ógild mundu væntanlega falla óskaplegar byrðar á Íbúðalánasjóð sem kæmi fram sem skattlagning á alla Íslendinga. Sumir fengju greitt, þeir sem skulda, og þeir sem ekki skulda mundu greiða og þar á meðal eru leigjendur, fjórðungur heimila, sem að mínu mati, frú forseti, eru nú þegar í mjög alvarlegri stöðu í dag. Það mundi ekki bæta stöðuna ef verðtryggingin yrði dæmd ógild.

Nú er ég alls ekki að segja að svo verði. Ég hef frekar litla trú á því vegna þess í fyrsta lagi undanskilur Evrópusambandið íbúðalán frá sinni tilskipun. Svo kæmu fyrningarfrestir og annað slíkt inn í þetta líka. Ég held því að þetta sé ekki sambærilegt við gengislánin. Engu að síður eru komnar upp ákveðnar væntingar og því tel ég mjög brýnt að leitt verði í ljós hver raunveruleikinn er. Ég vil benda á að það yrðu mikil tíðindi ef verðtryggingin yrði dæmd ógild.

Ég tel mjög brýnt að hv. utanríkismálanefnd vísi málinu hið snarasta til efnahags- og viðskiptanefndar sem er að fjalla um þessi mál. Það eru örfáir dagar eftir af þinginu. Ég tel mikilvægt að fenginn verði botn í þetta áður en mál um neytendalán verður afgreitt úr efnahags- og viðskiptanefnd.

Það er eflaust ekkert einfalt mál lögfræðilega að álykta út frá tilskipun sem ekki á við ákveðinn lánaflokk yfir á lánaflokkinn. Það geta komið alls konar sjónarmið fram um það. Ég held að hv. efnahags- og viðskiptanefnd þurfi að taka á honum stóra sínum við að leiða fram hið sanna í málinu. Ég mun ekki liggja á liði mínu þar, ég á sæti í þeirri nefnd, og mun taka þátt í því starfi um leið og kemur beiðni um það frá hv. utanríkismálanefnd.