141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[15:04]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um breytingartillögu meiri hluta hv. allsherjar- og menntamálanefndar sem lýtur að kynningum á framboðum, flokkum, fylkingum og hreyfingum í kosningum, jafnt kosningum til Alþingis, forsetakosningum, sem og fylkingum í þjóðaratkvæðagreiðslum. Þetta atriði var mikið rætt í nefndinni. Það er niðurstaða hennar að leggja til að Ríkisútvarpið skuli veita öllum gildum framboðum í þeim kosningum sem nefndar voru jafnt tækifæri til að kynna stefnumál sín á hefðbundnum dagskrártíma í sjónvarpi. Ég vek athygli á því að með breytingartillögunni er kominn áskilnaður um að Ríkisútvarpið þurfi að sinna þessari eðlilegu kynningu á stefnumálum í áhrifaríkasta miðlinum, í sjónvarpi, sem ekki var í frumvarpinu sem slíku. Á sama tíma er staðinn vörður um ritstjórnarvald Ríkisútvarpsins sem sömuleiðis er afar mikilvægt og helst í hendur við það meginmarkmið frumvarpsins að tryggja sjálfstæði þess í faglegum og fjárhagslegum efnum.