141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[21:33]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður segir að við eigum ekki peninga en stingur á sama tíma upp á því að við tökum lán til rekstrar, til að auka rekstur í heilbrigðiskerfinu, til að borga ýmsa þætti sem hún nefndi að þyrfti að koma til móts við.

Munurinn á þessu tvennu er einmitt sá að hér er ekki verið að borga rekstur heldur er verið að borga framkvæmdir á þeim forsendum að það muni skapa hagræðingu og greiða sig upp með henni. Og af því að hv. þingmaður nefndi líka í ræðu sinni að ekki væri til áætlun um það hvað það mundi kosta að gera ekki neitt, þá er það einmitt forsendan fyrir þeirri hagræðingu sem gert var ráð fyrir á sínum tíma upp á 2,6 milljarða, það er kostnaðurinn við það að gera ekki neitt og að þurfa að fara í endurbyggingu á öllum þeim byggingum sem núna eru í notkun.

Það vill gleymast að ástæðan fyrir því sem hefur þurft að gera í heilbrigðiskerfinu er auðvitað sú að við týndum 20% af ríkistekjum og erum að borga 80 milljarða, sem er nánast þessi framkvæmd, í vaxtakostnað, vegna þess að við þurftum að reka ríkissjóð með halla í framhaldi af hruninu. Menn vilja auðvitað gjarnan gleyma því en við skulum samt muna það.

Varðandi það að færa aðgerðir frá St. Jósefsspítala út á Reykjanes þá hefur engin fyrirstaða verið við það. Það voru meira og minna einkaaðilar sem sinntu skurðaðgerðunum á St. Jósefsspítala og þeir hefðu mátt nota skurðstofurnar á Suðurnesjunum, það hefur aldrei verið fyrirstaða við það. (Gripið fram í.) Nei, það er bara ekki rétt, ég fylgdi því eftir og sagði að það væri í sjálfu sér í fínu lagi. Ég kom meira að segja á Suðurnesin og sagði: Haldið þessum skurðstofum ef þið getið nýtt þær. Það verkefni hefur hins vegar ekki fundist, það hefur enginn áhugi verið fyrir því að fara þangað. Þetta eiga menn bara að þora að ræða.

Að breyta starfseminni á spítalanum í öldrunarþjónustu í Hafnarfirði hefur því miður ekki náðst einfaldlega vegna þess að við höfum verið í bullandi aðhaldi í framhaldi af þeim ósköpum sem dundu yfir íslenskt þjóðfélag og sumir vilja gleyma.

Við erum að slást við það að stuðla að auknum framkvæmdum til að vega á móti atvinnuástandinu eins og hefur verið rætt um, sjálfbærum framkvæmdum sem eru fjárfesting til framtíðar í heilbrigðiskerfinu (Forseti hringir.) til þess að við getum haldið okkar stöðu að vera með eitt besta heilbrigðiskerfi í heiminum. Það vona ég að verði gæfa þessa þings (Forseti hringir.) að tryggja að það verði hægt.