141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[22:09]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það kann vel að vera að hv. þingmaður sé ósáttur við 6. gr. fjárlaga og hafi verið það öll þau ár sem hann hefur setið á þingi, því að ég hygg að hún hafi verið þar allan þann tíma og kannski gott lengur þó að hv. þingmaður (PHB: Þetta er mitt …) hafi setið hér lengi.

Það dæmi sem hv. þingmaður tekur um Hörpu er allrar athygli vert. Harpa er versta dæmið um oflæti í opinberum fjárveitingum. Harpa og fjárveitingarnar og hvernig farið var með það er versta dæmið um oflætið sem hér réði ríkjum og við kennum oft við árið 2007 og var aðdragandi hrunsins, var táknmynd þess og ástæða í senn. (Gripið fram í.) Við stóðum frammi fyrir þeirri spurningu: Á að reisa Hörpu, af því að búið var að gera fjárskuldbindingar langt fram í tímann? Á að skilja gatið eftir opið sem minnismerki um hrunið og þá sem voru valdir að því? Eða á að slétta yfir það og reyna að gleyma því öllu saman?

Ég verð að segja fyrir mig, herra forseti, að ég tel að það hafi verið rétt ákvörðun að reisa Hörpu og ég gleðst í hvert skipti sem ég geng inn í það hús. Minnst var á það nýlega í þessum sal að söngurinn gleður (Gripið fram í.) og hann er sameign okkar allra. Við eigum að hlúa að Hörpu eins og við eigum að fara í það verkefni núna að reisa Landspítalann.

Ég vil aðeins segja að það eru engir sjö dagar sem við höfum haft hér. Við höfum haft 700 daga. Ef við horfum til þess frá árinu 2005 að um 25 þingvikur hafi verið á ári að jafnaði þann tíma kemur í ljós að það eru 700 dagar en ekki sjö sem við höfum verið að fjalla um þetta mál.