141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

innheimta og ráðstöfun tryggingagjalds.

[11:04]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég geri mér grein fyrir að ráðherrar geta ekki í óundirbúnum fyrirspurnum svarað öllum spurningum sem til þeirra er beint, en sú spurning sem ég spurði fyrst og fremst var hvað gerðist með starfsmennina. Við vitum hvað gerist með starfsmenn í sendiráðum, þeir sem þar vinna aðrir en diplómatar, Íslendingar fyrst og fremst hér, að þeir þurfa sjálfir að reiða fram tryggingagjaldið til þess að njóta þeirra réttinda sem í því felast, meðal annars af starfsendurhæfingarsjóðum og Fæðingarorlofssjóði. En hvernig er þetta hjá þeim þremur, fjórum fyrirtækjum sem hafa samninga samkvæmt lögum nr. 99/2010, og þeim öðrum sem hafa sérsamninga?

Svo að ég spyrji, með leyfi forseta, beint upp úr plaggi frá fjármálaráðuneytinu: „Ein spurningin sem vaknar í þessu sambandi snýr að því hvort undanþágan hafi áhrif á réttindi starfsmanna fyrirtækisins til þeirra velferðartrygginga og þjónustu sem gjaldinu er ætlað að fjármagna.“ Þetta er spurningin og ég vona að ráðherra geti svarað henni en get auðvitað spurt aftur ef það er ekki hægt.