141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:15]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ekki til nein ein fullkomin uppskrift af bestu fáanlegri stjórnarskrá. Ef sú væri raunin væri ekkert vandamál, hvorki hér né í öðrum þjóðríkjum, að setja landi stjórnarskrá. Það verða heldur ekki skrifaðar 63 mismunandi útgáfur af stjórnarskrá Íslands hér á Alþingi, allir hljóta að gera sér grein fyrir því.

Nú höfum við í höndum vandaða og vel undirbyggða tillögu að nýrri stjórnarskrá. Sú tillaga liggur fyrir eftir ítarlega umfjöllun og vel ígrundaða yfirferð og umræðu. Þetta hefur ekki verið þrautalaus umræða, enda stórt verkefni sem þjóðin og þingið hefur haft með höndum. Það er ástæða til að þakka öllum sem hafa lagt sitt af mörkum, þeim þúsundum sem hafa tekið beinan þátt í þjóðfundum, þjóðmálaumræðu, með ábendingum og athugasemdum, þeim sem hafa skrifað og fjallað um málið á opinberum vettvangi, lagt fram álit og tillögur og skýrt sín sjónarmið fyrir þingnefndum. Ekki síst vil ég þakka samstarfsfólki í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrir ánægjulegt, gefandi og ekki síst lærdómsríkt samstarf á undanförnum mánuðum og missirum.

Það eru kjörnir fulltrúar ríflegs meiri hluta á Alþingi sem leggja hér fram breytingartillögur og endanlega útfærslu á upphaflegri tillögu stjórnlagaráðs og með fylgir ítarlegt framhaldsnefndarálit upp á annað hundrað blaðsíður með fylgiskjölum. Það dylst engum að hér liggur mikil og vönduð vinna að baki. Vissulega er ávallt álitaefni um einstök atriði, en þau hafa verið þaulrædd og tekið tillit til allra þeirra ábendinga sem hafa getað fært málið og útfærslur til betri vegar, gert einstakar greinar skýrari og alla framsetningu markvissa hvað snýr að efni og innihaldi.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á endurskoðaðri framsetningu mannréttindakaflans sem er einstaklega vel unnin í alla staði og bendi sérstaklega á nýjan kafla um samfélag og náttúru. Auðlindaákvæði í 35. gr. er fullmótað og skýrt í alla staði þar sem þjóðareignir auðlinda lands og sjávar eru tryggðar í hvívetna. Í kosningakafla eru skýr ákvæði um jöfnun atkvæðisréttar og persónukjör. Samfélagsleg þátttaka og stóraukið lýðræði er tryggt með beinni aðkomu þjóðar að stærstu málum hvers samtíma. Endurskoðun á starfsskipan Alþingis er í góðri sátt allra sem um hafa fjallað. Endurskoðun stjórnskipunar hefur tekið meðal annars mið af ábendingum Feneyjanefndar og ég vek sérstaka athygli á 91. gr. um vantraust og jafnframt heimild forsætisráðherra hverju sinni til að kalla eftir sérstakri traustsyfirlýsingu frá Alþingi. Ný útfærsla á 113. gr. um stjórnarskrárbreytingar tengir saman meirihlutavilja þings og þjóðar að lágmarki 3/5 greiddra atkvæða.

Virðulegi forseti. Hvers vegna stefnir í það að vilji góðs meiri hluta Alþingis fái ekki að koma fram í þessu mikilvæga máli? Vilji sem er mótaður af skýrum tillögum og ákvörðun og samþykkt þjóðarinnar sjálfrar? Hver sættir sig við og getur unað slíkum vinnubrögðum við framgang þessa máls? Ætlar meiri hluti alþingismanna að sætta sig við að málið komi ekki til endanlegrar afgreiðslu fyrir lok þessa þings og kjörtímabils? Málinu verði ekki lokið af því minni hluti þingmanna hefur ítrekað og hefur enn og áfram í hótunum að beita öllum ráðum til að taka stjórnarskrármálið í kaf þvert gegn meirihlutavilja þjóðarinnar? Er það lýðræðið sem við viljum starfa eftir og sætta okkur við? Er það lýðræðið sem við ætlum nú að betrumbæta og treysta enn frekar í þeim tillögum sem felast í frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?

Átakanlegast í þessu máli öllu er að nær engin efnislega umræða hefur átt sér stað af hálfu þeirra sem hafa beitt sér af fullum krafti gegn stjórnarskrármálinu í þingsal og í þingnefndum. Þess í stað hefur umræðan grundvallast á einfaldri og fortakslausri höfnun. Aðeins einn þingmaður stjórnarandstöðu, hv. þm. Pétur H. Blöndal, hefur lagt fram breytingartillögur við málið allan þann tíma sem það hefur verið hér til umræðu og nefndum og þingsal, annars þögnin ein. Algjör þögn. Á stundum fer um mann kjánahrollur við að hlusta á viðbrögðin og umræðuna. Upphaflegar tillögur stjórnlagaráðs voru ómögulegar og ófærar í flestum atriðum og óskýrar og ómarkvissar. Þegar niðurstaða ítarlegrar umfjöllunar yfirferðar og endurskoðunar þingnefnda liggur fyrir er málið enn þá jafn ómögulegt af því að það er búið að gera svo miklar breytingar. Umfjöllun um efnisinnihald er engin. Umfjöllun um breytingar er engin. Afstaðan er áfram fúll á móti. Samantekið með einföldum hætti. Ergo: Þetta er allt ómögulegt af því ég er á móti. Tíminn er á þrotum af því að ég hef gætt þess vandlega að eyða honum í þras um ekki neitt. Ergo: Málið er dautt. Eru ekki allir glaðir? Nei, virðulegi forseti, það eru ekki allir glaðir, síður en svo. Þjóðin er döpur, afar döpur, og hún skilur ekki þessi vinnubrögð, hún skilur ekki verklag og vinnubrögð á Alþingi, hún hefur ekki traust á Alþingi. Það er bitri sannleikurinn í þessu máli.

Virðulegi forseti. Það hefur legið skýrt fyrir að ég tala eindregið fyrir því að það frumvarp sem hér liggur fyrir fái heildarumfjöllun og afgreiðslu á þessu þingi. Það er engin samfylking þingmanna í því að ætla að fleyta þessu stóra baráttu- og hagsmunamáli þjóðarinnar óafgreiddu í fullkominni óvissu inn í nýtt kjörtímabil. Það er ekkert vinstri eða grænt í slíkri afgreiðslu, þaðan af síður björt framtíð sem blasir við með slíku verklagi. Slík ákvörðun er engin framsókn og ekkert sjálfstæði, heldur ávísun á íhaldssemi og óbreytt ástand. Þjóðin á betra skilið.

Það verður að vera hreyfing á þessu máli. Þetta mál er ekki búið. Alþingi hefur tækifæri til þess á næstu sólarhringum að sýna að það hefur bæði dug og þor. Tillögurnar liggja fyrir. Meiri hluti þings getur náð þeim fram ef viljinn er fyrir hendi. Það væri sómi að slíkri framgöngu fyrir bæði þing og þjóð. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)