141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:13]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að segja annað en að ræða hv. þingmanns hafi einkennst af miklum sáttavilja, miklum vilja til að ræða þessi mál og reyna að ná breiðri samstöðu um auðlindaákvæði í þjóðareign. Ég fagna þeim mikla sáttavilja sem kom fram í máli hv. þingmanns. Ég held að það sé hægt að ná sátt um þessi mál og ég held að það sé hægt að ná víðtækri sátt um auðlindir í þjóðareign og að koma því ákvæði inn í stjórnarskrána. Ég bendi á að það sem lagt er þarna fram er óbreytt niðurstaða auðlindanefndarinnar frá árinu 2000, sem samstaða var um. (ÁI: Samstaða?) Þau fornu rit eru orðin 13 ára gömul. (Gripið fram í: Gamalt.)

(Forseti (ÁÞS): Forseti biður þingmenn í sal að gefa ræðumanni hljóð.)

Ég hvet hv. þingmann til að koma til liðs við okkur með annað ákvæði sem þarna er sett inn og snýr að því að óheimilt sé að framselja ríkisvald vegna auðlinda í þjóðareign til alþjóðlegra stofnana. (Gripið fram í.) Ég er sannfærður um að það er hægt að ná samstöðu um þau mál. Það er kannski hægt innan litlu Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, en ég er ekki viss um að það sé hægt innan stóru Samfylkingarinnar.

Eigum við ekki að setjast niður og ræða þessi mál og reyna að mynda breiða samstöðu um það að (Gripið fram í.) hægt sé að ná ákvæði um auðlindir í þjóðareign inn í stjórnarskrá?

Hv. þingmaður, við skulum setjast yfir það og reyna að mynda um það breiða sátt og þá á að tryggja líka að ekki sé hægt að framselja yfirráð yfir auðlindum til alþjóðlegra stofnana. (Gripið fram í: En til Íslendinga?)