141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:18]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég og hv. þingmaður höfum áður tekið þessa umræðu í þessum sal. Hún snýr að því ákvæði um að óheimilt sé að framselja ríkisvald vegna slíkra auðlinda til alþjóðlegra stofnana, (Gripið fram í.) meðal annars ríkjasambanda. Lögfræðingar sem komu fyrir umhverfis- og samgöngunefnd bentu á það. Lögfræðingar, sem við höfum síðan verið í sambandi við, bentu á að þetta væri ekki tryggt með óyggjandi hætti. Þess vegna ættum við að sameinast um að taka inn í auðlindaákvæðistillögu, eitthvað sem tryggir að ekki sé hægt að framselja auðlindina með þessum hætti.

Það er beinlínis rangt að Framsóknarflokkurinn hafi ekki viljað ræða þessi mál. Það hefur verið vandamál að forusta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og ríkisstjórnarflokkarnir hafa ekki viljað leita breiðari sátta í málinu. (Gripið fram í.) Það er beinlínis rangt sem hv. þingmaður heldur fram þar. Það hefur ítrekað komið fram hjá forustufólki Framsóknarflokksins að við séum tilbúin til að ræða málefni sem snúa að stjórnarskránni og við höfum lagt höfuðáherslu á að ná í gegn auðlindaákvæði sem tryggir þjóðareign á auðlindum og síðan beint lýðræði.

Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við reynum í þessu máli að mynda breiða samstöðu og breiða sátt. Það hefur ekki náðst hér í þinginu og er ekki hvað síst vegna starfa forustu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þar sem hv. þingmaður er. Það er bara staðreynd.