141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[20:51]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra sagði að margir sjálfstæðismenn væru íhaldssamir og það tel ég mikinn kost. (Utanrrh.: Ég sagði ekki að það væri löstur.) Alls ekki, ég er ekki að segja að hæstv. ráðherra hafi sagt það.

(Forseti (ÁRJ): Ekki samtöl við ræðumann.)

Ég held að það sé mjög gott, sérstaklega þegar stjórnarskráin er annars vegar, og þá þurfi menn að vera mjög íhaldssamir. Það höfum við séð á ferli þessa máls og við hljótum að hafa lært núna hvernig það er.

Ég sagði í upphafi ræðu minnar að það væri virðingarvert að þeir þrír hv. þingmenn sem flytja frumvarpið skuli þó reyna að stíga þetta skref til sátta. Það finnst mér virðingarvert vegna þess að málið var löngu komið upp í kletta. Það sjá allir sem vilja sjá, það var löngu fallið á tíma og algjörlega óraunhæft og algjör vitleysa að ætla að halda málinu til streitu eins og það var. Þess vegna segi ég: Mér fannst virðingarvert af þessum hv. þingmönnum að leggja þó þennan flöt til. Það er ekki fyrr en núna, og ég tek undir það með hæstv. utanríkisráðherra, sem þó er kominn flötur til að ræða málið í skynsamlegum farvegi. Þetta er flötur sem er búið að kalla eftir í mjög langan tíma, margar vikur og mánuði, af hálfu margra hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar. Sá flötur hefur ekki komist á fyrr en akkúrat núna, bara síðdegis í dag þegar þetta mál var lagt fram. Þessi flötur á því að ná samkomulagi og sátt um hvernig hægt væri að halda áfram með málið hefur ekki blasað við og ekki staðið til boða fyrr en með þessu máli hér. Þess vegna segi ég, og sagði í ræðu minni áðan, að við færum auðvitað í gegnum það. Hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem fær þetta mál til meðferðar mun skoða það og jafnvel koma með tillögur um hvort hægt verði að ná sátt í nefndinni með því að færa til þá þröskulda sem ég kom inn á í ræðu minni. Væntingar mínar til málsins eru töluverðar.