141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[11:55]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson segir að mikið hafi verið rætt um eftirlit og með hvaða hætti væri hægt að tryggja að peningar nýttust betur. Hér í frumvarpinu er gert ráð fyrir að heimildir séu auknar. Kallað hefur verið eftir möguleikum á að keyra saman upplýsingakerfi hjá ríkinu frá ólíkum aðilum þannig að menn geti fylgst betur með búsetu og öðru slíku, hvort fólk búi saman og allt þetta. Auðvitað verður að fara fram með varúð með slíkt eftirlit, meðal annars vegna laga um persónuvernd. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þessar heimildir verði veittar að hluta til og reynt að setja þær þannig fram að hægt sé að hafa slíkt eftirlit.

Varðandi stöðuna akkúrat í dag þá fær Tryggingastofnun sjálf fjárveitingar, annars vegar rekstrarfé og hins vegar greiðslur til bóta og það er rétt að stofnunin hefur sætt niðurskurði eins og aðrar stofnanir. Röðunin á því hvort fjárveitingarnar fari í eftirlit eða annað er forgangur innan Tryggingastofnunar. Það er þeirra val og auðvitað hafa verið ákveðin vonbrigði að hún hafi forgangsraðað með þessum hætti. Ég vildi sjálfur og verið er að skoða það að færa fjármagn úr bótaflokkunum, af því að ef það er rétt sem menn segja að hægt sé að ná í hundruð milljóna, jafnvel milljarða, þá eru 100 milljónirnar sem vantar í viðbót lítill peningur. Skoðað hefur verið hvort hægt sé að færa heimildina þar á milli þannig að með því að auka fjármagn til eftirlitsins þá sé hægt að lækka bætur á móti. Þannig standa fjárlög sem ég veit að er hv. þingmanni mjög þóknanlegt.