141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[11:57]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Mig langar að leita eftir viðbrögðum hæstv. ráðherra við því sem kemur fram í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Þar er mjög fast að orði kveðið og þar eru ákveðnar fullyrðingar um að engin greining eða áætlanagerð hafi farið fram við undirbúning frumvarpsins á því hvernig megi fjármagna svo mikla útgjaldaaukningu og að ekkert samráð hafi verið haft við fjármála- og efnahagsráðuneytið hvað slíkar breytingar varðar. Auðvitað er bent á að nú samrýmist það ekki ríkisfjármálastefnu ríkisstjórnarinnar og þetta er mjög hörð gagnrýni. Eins og hæstv. ráðherra sagði þá er ég áhugamaður um að ríkisútgjöldin standist og ég verð að viðurkenna að manni bregður oft við að lesa þau mörgu frumvörp sem er verið að leggja fram um aukin útgjöld inn í framtíðina.

Því langar mig að leita viðbragða hjá hæstv. ráðherra við umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins.