141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[13:43]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um mikilvægi þess að efla atvinnulífið og koma hjólum atvinnulífsins af stað því að í raun og veru stendur verðmætasköpunin undir auknum framlögum okkar til velferðarmála. Það segir sig sjálft.

Það sem ég hræðist, og það er persónuleg skoðun mín, er að við erum komin á þann stað í ríkisfjármálum að skuldir og skuldbindingar ríkissjóðs eru komnar yfir 2.000 milljarða, við erum með lífeyrisskuldbindingar upp á tæpa 400 milljarða í B-deildinni og nálgumst ört 100 milljarða í A-deildinni. Við höldum alltaf áfram að varpa vandamálunum á komandi kynslóðir. Við tökumst ekki á við það, við rekum í raun ekki ríkissjóð, það er hægt að halda langa ræðu um það hér. Staðan er sú að við verðum að fara að taka ákvarðanir um hvað við ætlum að verja.

Ætlum við að nota það svigrúm sem við höfum eða teljum okkur hafa til þess að byggja upp heilbrigðiskerfið? Nærtækast væri að byggja upp Landspítalann — við tölum um velferðarmálin í sambandi við lífeyristryggingarnar. Ég er klárlega á þeirri skoðun, en á sama tíma og við getum ekki gert nógu mikið þar erum við að mínu mati að fara í vitleysisframkvæmdir eins og byggingu húss íslenskra fræða upp á 3,4 milljarða og náttúruminjasýningu upp á 500 millj. kr., sem vantar síðan inn í fjárlög 200 millj. kr. til að reka.

Ég held að við þurfum að fara að taka umræðu um það, það er persónuleg skoðun mín. Ég hef stundum sagt að þetta sé eins og þegar foreldrar velja að kaupa sér áfengi og tóbak áður en þeir kaupa í matinn fyrir börnin sín og spá svo hvort þeir eigi til peninga til að kaupa mat fyrir börnin.