141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

slysatryggingar almannatrygginga.

635. mál
[19:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Nú hef ég ekki kannað það nýlega hve langur tími líður frá því að menn lenda í slysi og þar til örorka liggur fyrir og hvort sá tími sé að lengjast. Ég geri ráð fyrir því, vegna þess hve læknisfræðinni fleygir fram, að það verði í rauninni alltaf erfiðara og erfiðara að meta hvenær endanleg örorka er áunnin vegna þess að það er hægt að fara í alls konar læknisfræðilegar aðgerðir sem virka kannski á mjög löngum tíma til að laga viðkomandi tjón. Þess vegna verður þetta alltaf erfiðara. Þess vegna tel ég svo nauðsynlegt, eins og ég gat um áðan, að tekinn verði upp örorkutrygginga- eða örorkugreiðslusjóður sem sjái um greiðslur til fólks þegar það lendir í örorku vegna þess að það líður alltaf lengra og lengra þar til endanleg örorka kemur fram. Það getur vel verið að menn endurhæfist, það komi einhver ný vísindi eftir tíu ár eftir tjón sem gera að verkum að maður sem var öryrki er það ekki lengur og getur farið að vinna á fullu.

Þetta er nú kannski sá vandi sem við glímum við, að reyna að loka dæminu á milli þess sem olli slysinu og þess sem er þolandi, reyna að klippa þar á, að þolandi sé ekki stöðugt einhvern veginn tengdur slysvaldinum, þeim sem olli slysinu. Ég held að það þurfi að endurskoða svona biðtímaákvæði mjög ítarlega. Ég legg til að hv. nefnd afli sér upplýsinga um það hvernig þetta ákvæði kemur til með að virka. Ég held nefnilega að þetta frumvarp um slysatryggingar almannatrygginga sé ekki eins einfalt og ráðherra vildi vera láta og taldi að ástandið yrði bara óbreytt. Það er nefnilega heilmikið að gerast í málum sem varða örorku og endurhæfingu.