141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[20:34]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna því að slík frumvörp liggi á borðunum. Ég hefði kosið að sjá þau allnokkru fyrr en mig langar að þakka hæstv. ráðherra innganginn og spyrja þriggja spurninga.

Í fyrra andsvari mínu ætla ég reyndar að halda mig aðeins við þær spurningar sem hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir bar upp um fordæmi og fyrirmynd er varðar til að mynda Helguvík. Ég heyrði svör hæstv. ráðherra um að ef fyrir lægju sambærileg fjárfestingarverkefni eða sambærilegar aðstæður væri því auðvitað ekkert til fyrirstöðu að slíkt frumvarp kæmi fram. Er þá ekki ráðherrann að meina frumvarp um innviðabygginguna, þ.e. víkjandi lán varðandi hafnargerð? (Forseti hringir.) Ég veit ekki hvort ég misskildi það eitthvað og spyr hvort iðnaðarlóðir kæmu eitthvað þar við sögu eða hvort þær kæmu ekki við sögu þar sem þær lægju fyrir.