141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

lengd þingfundar.

[11:02]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það fer að verða regla frekar en undantekning að þingfundir standi fram á kvöld og nótt. Ég vara við þeirri þróun. Við erum með annað mál á dagskrá í dag sem fjallar um vörugjald og tollalög, sykur og sætuefni. Um hvað fjallar það, frú forseti? Þetta er leiðrétting á lögum sem við settum fyrir þremur mánuðum. Það þýðir að þingið vinnur of mikið fram á kvöld og nætur og er með of mikið undir hverju sinni.

Ég kvarta líka undan því að hæstv. ríkisstjórn hefur stundað mjög lélega verkstjórn á sínum málum. Málin koma inn of seint og illa undirbúin og þess vegna erum við með óskaplega langan lista af málum til afgreiðslu á dagskrá í dag og í nefndum þingsins sem bíða líka eftir því að vera rædd. Ég er á móti því að menn geri það að reglu að vinna hér fram á nótt.