141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[12:18]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég er sammála því sem fram kom þar, þetta mál er svo sem ekki stórt í sniðum og kannski er mikil sátt um það í þinginu, en mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann geti tekið undir þá skoðun mína að þetta sé í raun og veru áminning um þá stöðu sem fyrirtækin eru í. Við vitum hvað gerðist 2008 í kjölfar efnahagshrunsins. Þá lentu mörg fyrirtæki í miklum erfiðleikum og því miður höfum við ekki náð að vinna okkur út úr því og skapa þá umgjörð sem nauðsynleg er fyrir fyrirtækin til að geta staðið skil á þeim sköttum sem hér um ræðir, vörugjöldum og tollum og öðru. Þess vegna þarf að bregðast við með þessum hætti. Það segir okkur fyrst og fremst hver staða fyrirtækjanna er. Hún hefur ekki skánað.

Nýjustu fréttir frá því í morgun herma að hagvöxturinn á árinu 2012 verði einungis 1,6%. Í forsendum fjárlaga var gert ráð fyrir að hann yrði um 2,7%. Í haust var áætlunin endurskoðuð og hagvaxtarspáin færð niður í 2,3%–2,5% en síðan, þegar menn fara að gera upp, er hagvöxturinn aðeins 1,6%. Það segir okkur allt um í hvaða umhverfi fyrirtækin eru og það er ástæðan fyrir því að stjórnvöld þurfa að bregðast við með þessum hætti, þ.e. að fresta gjalddögum til að koma til móts við fyrirtækin sem ekki geta staðið skil á gjöldunum á réttum tíma, eða alla vega geta sum þeirra það ekki.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann: Er þetta ekki fyrst og fremst áminning um hvers konar umhverfi fyrirtækin starfa í í dag?