141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[15:24]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil leiðrétta hv. þingmann en hann sagði að Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið einn við völd um áratugaskeið. Það vill að minnsta kosti enginn kannast við slíkt og við skulum rifja það upp. Ég held að árin 1991–1995 hafði það verið Alþýðuflokkurinn með Sjálfstæðisflokknum, Framsóknarflokkurinn eftir það og svo Samfylkingin 2007–2009. Ég get svo sem skilið ef hv. þingmaður vill gleyma því samstarfi því að ég man árið 2007 þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar kom fram með fjárlög þar sem útgjaldaramminn var hækkaður um heil 20% og þá sérstaklega í ráðuneyti hæstv. þáverandi félagsmálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég veit að hv. þingmaður er ekki ánægður með þá arfleifð, enda var ekki hyggilegt að hækka útgjaldarammann um svo margar prósentur á þeim tíma.

Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni, og við þingmenn Framsóknarflokksins sem höfum tekið þátt í umræðunni, um að nauðsynlegt sé að einfalda þann frumskóg sem vörugjöldin, tollarnir og virðisaukaskattskerfið er vegna þess að eins hv. þingmaður segir hefur ríkisstjórnin því miður flækt skattkerfið í allt of miklum mæli. Ég er ekki stoltur af því að tilheyra þjóð þar sem er meðal annars hæsti skattur á barnafötum í heimi. Það er arfleifð þessarar ríkisstjórnar. Við horfum upp á að skattkerfinu hefur verið breytt þannig að það bitnar hvað harðast á ungu barnafólki hér á landi sem hefur kannski orðið hvað verst fyrir afleiðingum hrunsins vegna þess að verðtryggðar skuldir lána þeirra, heimila ungs fólks, hafa stórhækkað frá hruni.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann muni líka vilja beita sér fyrir því eftir næstu kosningar að gerðar verði einhverjar endurbætur á skattumhverfi, sérstaklega barnafjölskyldnanna í landinu.