141. löggjafarþing — 93. fundur,  9. mars 2013.

störf þingsins.

[11:03]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er grundvallaratriði að atvinnuvegafjárfestingin aukist, fjárfesting fyrirtækjanna á Íslandi. Hv. þm. Kristján L. Möller gerði að umræðuefni fjárfestingar hins opinbera, ríkisins. Við sjálfstæðismenn höfum bent á nauðsyn þess fyrir ríkið að það séu til peningar fyrir slíkum framkvæmdum. Það er ein umræða en það sem Hagstofan bendir á, það sem er verið að vara við og hefur verið varað við mánuðum, missirum og árum saman, er að atvinnuvegafjárfestingin er grundvöllur fyrir hagvexti í landinu, grundvöllur fyrir því að laun geti hér hækkað og ríkissjóður aflað sér tekna. Það er hinn bitri sannleikur og það sem svo erfitt er að horfast í augu við og þess vegna ákvað hv. þm. Kristján L. Möller að horfast ekki í augu við það að sú fjárfesting, atvinnuvegafjárfestingin, er ekki að aukast. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Fram undan er fjárfesting á Bakka (Gripið fram í.) og skoðum nú aðeins hvað þurfti til. Það þurfti að lofa því fyrirtæki að fella niður gjöld og skatta. Tryggingagjaldið skyldi fellt niður, skattarnir lækkaðir og það sem meira var, til að tryggja að hægt væri að mennta starfsfólkið ætlar ríkið að lofast til þess að setja 223 milljónir í starfsmenntun inn í það fyrirtæki. Hver er lærdómurinn af þessu máli? Jú, forustumenn ríkisstjórnarinnar settust niður og skoðuðu rekstrarforsendur þessa sérstaka fyrirtækis og áttuðu sig á því að það var ekki hægt að ráðast í fjárfestingar nema skattar og gjöld yrðu lækkuð og tryggingagjaldið látið fara. Ef sömu hæstv. ráðherrar skoða efnahagslífið allt, rekstur annarra fyrirtækja í landinu, blasir við að hið sama gildir um íslensk fyrirtæki. Þau borga of hátt tryggingagjald. Það var reyndar lofast til þess að lækka það gjald og ekki staðið við. Það er þess vegna, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) vegna hinnar pólitísku óvissu, vegna of mikilla skatta og gjalda, sem íslenskt atvinnulíf nær ekki að fjárfesta og það er þess vegna sem við erum í vandræðum (Forseti hringir.) og það er þess vegna sem verðbólgan mun aukast hér og kjör Íslendinga rýrna.