141. löggjafarþing — 93. fundur,  9. mars 2013.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

630. mál
[11:36]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í framsögu minni var þessi möguleiki kannaður við undirbúning frumvarpsins, þ.e. að fella niður öll námslán við 67 ára aldur. Í kostnaðarmati menntamálaráðuneytis og Ríkisendurskoðunar er gert ráð fyrir að slík breyting hefði í för með sér talsverðan einskiptiskostnað, 17 milljarða kr. Staða ríkissjóðs var ekki talin leyfa slíka breytingu að sinni.

Ég vil þó nefna það, eins og líka kom fram hjá mér áðan, að endurgreiðslur námslána eru tekjutengdar. Þær eiga í sjálfu sér ekki að vera um of íþyngjandi ef þær eru tengdar tekjum á hverjum tíma. Ég held því til haga í þessu samhengi að þetta var skoðað við undirbúning frumvarpsins en ekki var talið rétt að fara fram með það, a.m.k. ekki að þessu sinni.