141. löggjafarþing — 93. fundur,  9. mars 2013.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

630. mál
[12:47]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða þetta mál rétt fyrir þinglok. Það þýðir að þetta verður fyrst og fremst rætt hér, síðan munu menn væntanlega setja þetta í nefnd og fá umsagnir. Það er svo sem vinna sem mun alltaf nýtast en augljóst er að áhersla ríkisstjórnarinnar er ekki á að klára málið á þessu kjörtímabili. Ef svo hefði verið þá hefði hæstv. ríkisstjórn komið með málið miklu fyrr, það er augljóslega vanbúið og ekki nógu vel unnið vegna þess að hér kemur fram að það felur í sér gríðarlega mikinn kostnað án þess að neitt sé tekið af því neins staðar annars staðar.

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að mér finnst svolítið sérstakt að sjá mál eins og þetta, sem ég held að gefi fólki mjög miklar væntingar, það er búið að kynna það nokkuð vel í fjölmiðlum, áður en hv. þingmenn sem eiga að fara með málið fá að sjá það. Núna eru bara nokkrar mínútur í þinglok og að koma fram með þetta stóra mál núna segir okkur að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki sett það í forgang.

Enginn vafi er á því að afskaplega nauðsynlegt er að hafa öflugan og sterkan lánasjóð og ég sé ekki hvernig við getum náð þeim markmiðum sem við viljum sjá varðandi menntakerfið án þess að hafa stuðning við námsmenn með þessum hætti, eða þá með því að styrkja þá beint. Það er hins vegar áhugavert að lesa umsögn fjárlagaskrifstofunnar. Hún er mjög fróðleg og dregur ágætlega upp helstu þætti sem snúa að málinu. Mjög ánægjulegt er að fjárhagur lánasjóðsins sé traustur því ef hann er ekki traustur þá mun það koma beint niður á námsmönnum. Það kemur alltaf að skuldadögum í þessu eins og öllu öðru og ég man þá tíð þegar þurfti að fara þá leið að hækka vexti upp í 1%, áður höfðu lánin verið vaxtalaus, og sömuleiðis að herða endurgreiðslurnar, þær voru 4,75%, ég held að það hafi verið breytingar sem voru gerðar 1992, það má þó vera misminni hjá mér.

Það var auðvitað hrikaleg barátta, það var mjög erfitt og námsmenn spurðu einfaldlega þessarar spurningar: Af hverju erum það við sem eigum að taka þennan skell? Af hverju getum við ekki haft sömu reglur og þeir sem hafa fengið fyrirgreiðslu úr sjóðnum áður? Það var bara þannig, það var ákveðin kynslóð sem fékk skellinn út af syndum fyrri kynslóða. Meira að segja var hópur sem fékk það í tiltölulega skamman tíma því að árið 2004 var endurgreiðsluhlutfallið lækkað úr 4,75% í 3,75%. Það fólk sem var að greiða á árunum 1992–2004 er væntanlega það fólk sem hefur fengið minnstu fyrirgreiðsluna út úr lánasjóðnum.

Virðulegi forseti. Það er varhugavert og ég er að vonast til þess að við séum að komast á þann stað í íslenskum stjórnmálum að menn lofi ekki bara einhverju sem er ekki hægt að standa við rétt fyrir kosningar bara til að ná í atkvæði. Það er mjög alvarlegt og ég skil ekki, miðað við þær forsendur sem eru í fjárlögunum og stöðuna í ríkisfjármálum og efnahagsmálum, af hverju við sjáum hér á síðustu dögum þingsins allra handa frumvörp þar sem er verið að lofa gríðarlegum fjármunum.

Hér er að öllu óbreyttu gert ráð fyrir 3–5 milljörðum á ári miðað við umsögn fjárlagaskrifstofunnar. Við erum með aukaútgjöld til RÚV um 600–700 milljónir, Fæðingarorlofssjóð á að auka um einhverja milljarða, náttúruverndarfrumvarpið á að auka útgjöld um 100–200 milljónir og svo mætti lengi telja. Á meðan við komum ekki með leiðir til þess að greiða fyrir þetta þá stenst þetta ekki. Í fylgiskjalinu, umsögn um þetta frumvarp, eru að vísu raktar hugmyndir um hvernig væri hægt að ná niður kostnaðinum og ég held að það sé mjög mikilvægt að menn taki þá umræðu í þjóðfélaginu. Til dæmis er bent á að uppbyggingin á sjóðnum er þannig að ef við tökum lán í lánasjóðnum, sem flestir hafa gert, þá er endurgreiðslan 47–50%, það er í raun styrkurinn sem hver sá sem tekur námslán fær. Það er hins vegar mjög misskipt, þeir fá mest sem byrja seinna í námi og það eru engin takmörk á því. Það er kannski bara eðlilegt en hins vegar gerir það að verkum að það verður minna til fyrir hina sem byrja fyrr.

Ýmsum hugmyndum sem Ríkisendurskoðun kom með varðandi þessa þætti er velt upp. Eins og til dæmis að hafa eitthvert takmark, að fólk geti fengið lán frá 18–50 ára. Mér vitanlega hefur umræða um kosti og galla þess ekki verið tekin. Það eru auðvitað bæði kostir og gallar hvað það varðar, við erum með mjög opið kerfi og það er auðvitað frábært. Ég held að það sé frábært, eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra áðan, að við séum með þá sérstöðu að fólk fari í nám á öllum aldri.

Mjög jákvætt er að breið pólitísk samstaða er um að vera með öflugan Lánasjóð íslenskra námsmanna. Það er mjög breið pólitísk samstaða um að öllum Íslendingum verði gert kleift að stunda nám sem er sambærilegt við það sem gerist annars staðar. Sem betur fer höfum við haft það fyrirkomulag að ekki aðeins erum við með góðar menntastofnanir hér á landi heldur höfum við einnig gert fólki kleift að stunda nám annars staðar. Það er mjög mikilvægt því að þó við eigum hvergi að hvika frá því markmiði að vera með öflugar menntastofnanir hér þá verðum við alltaf að bjóða upp á það að fólk geti sótt nám til annarra landa. Það er grundvallaratriði fyrir okkur Íslendinga, okkar fámennu þjóð, að við séum opin fyrir hugmyndum og þekkingu annars staðar frá og það er engin leið betri heldur en að bjóða ungu fólki, og svo sem fólki á öllum aldri ef út í það er farið, að nema það sem best gerist annars staðar og kynnast venjum og siðum og hefðum í öðrum löndum.

Enginn vafi er í mínum huga um að það er til dæmis gríðarlegur styrkleiki fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu að heilbrigðisstarfsfólk sækir nám til annarra landa og ekki allt til sama landsins. Til dæmis fara um 40% lækna til Skandinavíu, um 40% þeirra til Bandaríkjanna og síðan eru 20% sem fara til Evrópu og Bretlands. Það gerir það að verkum að ólíkir straumar hvað varðar læknisfræðina og heilbrigðismálin koma hingað til Íslands og ég held að í því felist mikill styrkur. Ég held að það sé miklu betra fyrir okkur Íslendinga að gera þetta með þessum hætti heldur en ef þeir sem nema til dæmis heilbrigðisvísindi færu allir á sama staðinn eða til sama landsins.

Ég vona að sama hvaða breytingar við gerum á þessu fyrirkomulagi að við hvikum ekki frá því að gefa fólki frelsi til að velja sér nám, því að það má aldrei þannig verða að við skerðum frelsi fólks til þess að taka ákvörðun um hvar það telji best að nema. Ég átta mig á því að fram kemur í frumvarpinu að eðli málsins samkvæmt þurfi að meta hvaða nám er hæft til þess að viðkomandi nemandi geti fengið fyrirgreiðslu úr lánasjóðnum, en uppleggið má aldrei verða þannig að við séum að ákveða hvar við teljum að sé best fyrir fólk að læra. Það er enginn vafi á því að einstaklingarnir eru best færir um að gera það sjálfir og mjög mikilvægt að við séum ekki með forræðishyggju hvað það varðar.

Svo við lítum á björtu hliðarnar þá er málið gott, þó svo að auðvitað hefði þetta verið eitt af þeim málum sem við hefðum átt að ræða á þessu kjörtímabili, þetta er dæmi um mál sem ríkisstjórnin hefði átt að setja í forgang. Við sjáum, eftir þessi fjögur glötuðu ár, að við erum búin að vera að ræða allt aðra hluti heldur en jafnmikilvæg mál og þessi. Hugsið ykkur hvað það hefði verið skynsamlegra ef við hefðum fengið málið um mitt kjörtímabil og hefðum getað tekið þann tíma sem þurfti til þess að vinna mál sem þetta, þetta mikilvæga mál sem við erum sammála um að verði að vera. Ég ætla ekki að fara að tárfella, en það er alveg ótrúlegt klúður, virðulegi forseti, að við skyldum ekki nýta kjörtímabilið í mál eins og þetta. Hvað erum við búin að vera að gera hér?

Ég hef staðið svolítið í þessum stól og við erum búin að vera að þrátta um stjórnarskrármál, Icesave og allra handa mál í endalausum ágreiningi þar sem er reynt að keyra mál með mikilli hörku í gegnum þingið án þess að taka tillit til eins eða neins. Stærsti tíminn hjá stjórnarandstöðunni hefur farið í einhvers konar björgunarstörf, að bjarga þjóðinni frá ríkisstjórninni eða verkum hennar. Ég ætla nú ekki að dvelja lengur við þann þáttinn heldur líta á björtu hliðarnar. Augljóst er að mikil vinna hefur verið unnin í tengslum við þetta mál og hún hlýtur að nýtast. Mjög mikilvægt er að menn taki ekki þá vinnu sem er unnin og hendi henni út um gluggann þegar nýir aðilar taka við, hverjir sem þeir verða. Við eigum að byggja á þeirri vinnu sem er til staðar, ekki það að menn þurfi að vera sammála öllu en það er útilokað annað en að á bak við frumvarpið sé mjög mikið af upplýsingum, samantektum og öðru slíku sem mun nýtast við að fara í þær breytingar sem við teljum nauðsynlegar á lánasjóðnum.

Virðulegi forseti. Við viljum auðvitað gera sem allra best við námsmenn, við viljum sjá til þess að sem flestir geti farið í nám og að framfærsla þeirra sé tryggð. Við munum aldrei ná fullkomnun í því, því miður, en það er alveg ljóst að ef við förum ekki í aðgerðir sem byggja á traustum grunni þá munu námsmenn á einhverjum tímapunkti bera þann skell. Þó að það verði ekki námsmenn dagsins í dag þá eru það námsmenn í nánustu framtíð.

Ástæðan fyrir því að ég nefni það er að ég man svo vel þegar var farið í þessar breytingar á sínum tíma. Fólkið sem borgaði frá 1992–2004 er það fólk sem hefur fengið minnstu fyrirgreiðsluna hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna og því fólki fannst það bara ekki neitt sanngjarnt. Málið er einfalt, það var auðvitað ekkert sanngjarnt, þannig að við skulum fara vel yfir þetta. Ég held að við séum sammála um markmið, ég hef ekki heyrt annað, en við þurfum að ganga þannig fram að við getum staðið við þessar skuldbindingar og náð þeim markmiðum að hafa eins góða og trygga framfærslu og mögulegt er fyrir sem allra flesta námsmenn.