141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

framkvæmdaáætlun í barnavernd til 2014.

458. mál
[16:54]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við greiðum atkvæði um metnaðarfulla áætlun í barnavernd. Meiri hluti nefndarinnar gagnrýnir hversu seint hún kemur fram og að ekki sé tryggt fjármagn í alla þætti hennar. Þar vil ég helst nefna fjármagn til nýrrar stofnunar sem gerir okkur kleift að uppfylla barnasáttmálann sem við lögfestum á dögunum og framlög til þess að efla Barnahús til framtíðar og vegna þess óvenjulega ástands sem þar er vegna fjölda barna sem nú leita þangað vegna kynferðisbrota.

Samfylkingin mun greiða atkvæði með þessari áætlun enda er hér um stefnumarkandi plagg að ræða. Við lítum svo á að í kjölfarið verði ráðherra og ríkisstjórn að forgangsraða fjármunum þannig að hægt verði að framfylgja áætluninni.