141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[17:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Forseti. Í fyrsta lagi þetta. Það varð alveg gríðarlegt hrun líka í skráðum hlutabréfum og á verðgildi þeirra í hruninu. Það var því ekkert gefið með það að þó að lífeyrissjóðirnir fjárfestu á sínum tíma í skráðum hlutabréfum að það færi eitthvað betur, þeir töpuðu heilum hellingi á því líka, þannig að það er nú eitt.

Ég tel að með þessu séum við að gera gott að því leytinu til að það er orðin gríðarlega mikil fjárfestingarþörf af hálfu lífeyrissjóðanna og það er líka gríðarlega mikil þörf úti í atvinnulífinu fyrir aukna atvinnuvegafjárfestingu. Það er orðin gríðarleg þörf fyrir fjármuni inn í lítil og meðalstór fyrirtæki sem ekki hafa tök á að fara inn í skráningarferli strax. Þess vegna tel ég að sú niðurstaða sem nefndin kemst að, sem m.a. Fjármálaeftirlitið á sæti í, sé til góðs.

Heildarendurskoðun á lífeyrissjóðakerfinu er í gangi eins og ég hef áður átt samtal við hv. þingmann um.