141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

störf þingsins.

[10:44]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það var góð spurningin áðan, hvað við ætluðum að gera síðustu daga þingsins. Ég kom að vestan frá Ísafirði í gær í flugi og sat við hliðina á skynsömum framsóknarmanni, sem er kannski ekki í frásögur færandi, (Gripið fram í: Jú.) en hann rammaði það inn sem ég hef verið að hugsa um núna síðustu daga af hverju í ósköpunum stjórnarandstaðan semur ekki um þau áherslumál sem hún vill fyrir sinn hatt koma í gegn (Gripið fram í.) og hleypa þeim málum til afgreiðslu sem stjórnin er með á sinni könnu. Hvaða eftirspurn er eftir málþófi um tollalög, vörugjöld og einhver mál sem þverpólitísk samstaða er um. Ekki er eftirspurn eftir því hjá framsóknarmönnum, ekki fyrir vestan að minnsta kosti, ég veit ekki hvort það er annars staðar á landinu hjá öðrum kjósendum.

Þetta eru gamaldags vinnubrögð sem eiga ekki að líðast. Það eru brýn mál, eins og mál sem ég ber fyrir brjósti varðandi þetta litla fiskveiðistjórnarfrumvarp sem er á dagskrá, menn eru að leggja stein í götu þess að hægt sé að mæta því, til dæmis hvað varðar meðafla ýsu, sem kallað er eftir úr mörgum kjördæmum að menn þvert á flokka sameinist um að koma í gegn. Það er líka í því frumvarpi neyðarbyggðakvóti fyrir byggðarlög eins og Raufarhöfn og sambærileg byggðarlög vítt og breitt um landið sem kjósendur sjálfstæðismanna og framsóknarmanna bíða eftir að verði afgreitt hérna. Hvar eru þingmenn þeirra kjördæma í því máli að vera að eyða tíma þingsins á síðustu dögum þess í einhver mál sem enginn ágreiningur er um til að stoppa mikil og góð mál eins og það mál, sem er byggðamál? Menn eru að stoppa mál og hægja á ferðinni til að hægt verði að afgreiða mál eins og Lánasjóð íslenskra námsmanna og fleiri góð mál. Ég segi bara eins og síðasti þingmaður: Hvað ætlum við að gera hérna síðustu daga þingsins? (Gripið fram í: Fara heim.)