141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[14:34]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni athyglisverða ræðu. Það mátti greina nokkurn trega eða eftirsjá í máli hans þegar hann ræddi um hlutverk Ríkisútvarpsins af því að það sem er í endurskoðun okkar á Ríkisútvarpslögunum er að verulegu leyti byggt á lögunum sem þingmaðurinn setti sjálfur og samþykkti í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 2005/2006. Þá voru margar ágætar breytingar gerðar á lögunum þó að þær væru umdeildar. Þá var t.d. ákveðið að stofnunin yrði opinbert hlutafélag. Gamla útvarpsráðið var lagt niður og þetta stjórnarfyrirkomulag var ákveðið. Hlutverkið var samið alveg upp á nýtt nema að hér er heldur verið að hefla það til, stytta og samræma.

Þá vandlætingu sem greina mátti í máli þingmannsins er varðar uppsetningu á hlutverki RÚV má því að stærstum hluta rekja til lagabreytinganna á sínum tíma fyrir sjö árum síðan, nema hvað núna er heldur verið að hefla hlutverkið og meitla það og draga það saman. En annars er byggt á því sem vel var gert í þeirri lagasetningu, sem var fjölmargt. Ég held að Ríkisútvarpið hafi aldrei verið öflugri fjölmiðill en núna. Við getum auðvitað rökrætt gagnrýni á inntaki og hvort sýna eigi meira eða minna af erlendu afþreyingarefni, en hins vegar held ég að það þurfi að sýna vinsælt afþreyingarefni til að halda ákveðnu áhorfi og hlustun á það efni sem við teljum til fræðslu og fréttamiðlunar.

Hv. þingmaður mælti mjög með tillögu fulltrúa Sjálfstæðismanna um að minnst 20% af fjárveitingum dagskrárgerðar Ríkisútvarpið væri varið til kaupa á innlendu efni af sjálfstæðum framleiðendum, sem er gott markmið og ég tek undir, en að fara úr einu skrefi úr 6% í 20% hlýtur að kalla á mikið rót innan stofnunarinnar, hugsanlega fækkun starfsmanna og fleira slíkt. Hafa flutningsmenn og Sjálfstæðisflokkurinn látið meta (Forseti hringir.) áhrifin af þeim breytingum?