141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[14:51]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Við ræðum um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Í upphafi máls míns langar mig að segja að ég held að mjög mikilvægt sé að við Íslendingar eigum fjölmiðil eins og Ríkisútvarpið. Á hverjum tíma verður maður vissulega var við að í samfélaginu gagnrýna menn þennan fjölmiðil okkar fyrir umfjöllun. Það eigi að fjalla meira um þessi mál, minna um hin málin, það eigi að vera meira af svona dagskrárefni en ekki hinsegin dagskrárefni og svo framvegis. En þegar öllu er á botninn hvolft þá er ég þeirrar skoðunar að mjög mikilvægt sé að við eigum öflugan fjölmiðil eins og Ríkisútvarpið og að við gerum allt sem í okkar valdi stendur til þess að gera hann að óháðum fjölmiðli sem við getum treyst til að nálgast viðfangsefnin á hlutlausan hátt og tryggja að hann sinni hinum fjölmörgu þáttum sem ekki er hægt að gera kröfur til þess að einkageirinn á sviði fjölmiðlarekstrar geri.

Ég held að margt ágætt sé í þessu frumvarpi. Ég ætla að byrja á að fara inn á það sem hv. þingmenn ræddu áðan og snýr að möguleikum framboða til þess að kynna stefnu sína. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir er búin að flytja breytingartillögu við þetta mál sem hljóðar svo, með leyfi frú forseta, að inn í frumvarpið bætist þessi setning:

„Einnig skal Ríkisútvarpið veita öllum gildum framboðum til Alþingis jafnan útsendingartíma til að kynna stefnumál sín án endurgjalds.“

Þessi breytingartillaga kemur á eftir lið í frumvarpinu sem fjallar einmitt um hlutverk Ríkisútvarpsins þegar kemur að því að kynna framboð til almennra kosninga og er undirliður undir því hvernig Ríkisútvarpið eigi að sinna sínu lýðræðislega hlutverki. Sá liður hljóðar svo, með leyfi frú forseta, eitt af hlutverkum Ríkisútvarpsins í lýðræðislegri umræðu er að:

„Kynna framboð til almennra kosninga, helstu stefnumál framboða, frambjóðenda og fylkinga eftir atvikum og greina ítarlega frá niðurstöðum kosninga. Þá skal það veita öllum gildum framboðum til Alþingis og forsetakosninga, sem og fylkingum í þjóðaratkvæðagreiðslum, jafnt tækifæri til að kynna stefnumál sín á hefðbundnum dagskrártíma í sjónvarpi. Ríkisútvarpið skal birta reglur þar að lútandi. Í alþingiskosningum er heimilt að takmarka útsendingartíma þeirra framboða sem ekki bjóða fram í öllum kjördæmum þannig að þau fái hlutfall af heildarútsendingartíma til samræmis við það hlutfall kjördæma sem þau bjóða fram í.“

Ég held að mjög mikilvægt sé að Ríkisútvarpið sinni einmitt þessum lið og að mótuð sé stefna hvað hann snertir. Eðlilegt er þegar við fjöllum um mál í lýðræðissamfélagi, hvort sem er í forsetakosningum, almennum þjóðaratkvæðagreiðslum eða alþingiskosningum, að einn fjölmiðill sé í opinberri eigu og tryggi að öll sjónarmið eigi möguleika á að koma þar inn. Ég held að líka sé eðlilegt að sú breytingartillaga sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefur lagt til, sem snýr að því að Ríkisútvarpið tryggi ákveðinn jafnan útsendingartíma til þessara framboða til þess að kynna stefnumál sín án endurgjalds, fari þarna inn.

Vegna umræðunnar sem varð hér áðan um að þetta gæti orðið misspennandi sjónvarpsefni og að kannski sé ekki eðlilegt að þeir stjórnmálaflokkar sem útlit er fyrir að nái ekki kjöri á þingi fái ekki tíma til þess að kynna sín stefnumál þá er það vissulega svo að Ríkisútvarpið mun áfram segja fréttir af málum sem eru efst á baugi í þjóðfélaginu og þá er ekki ólíklegt að þar verði fyrirferðarmeiri þeir flokkar sem eru stærri eða þeir flokkar sem eiga sæti í ríkisstjórn, eiga ráðherra og svo framvegis. En það er mjög eðlilegt að allir stjórnmálaflokkar, óháð því hvernig þeir mælast, hafi aðgengi að fjölmiðlum. Við vitum hversu mikið vald fjölmiðlarnir hafa og hversu veigamiklu hlutverki þeir gegna í því að koma upplýsingum til almennings.

Í þessu sambandi held ég að mjög mikilvægt sé að breytingartillagan sé samþykkt þannig að ný framboð eigi möguleika á því að fá útsendingartíma þar sem þau geta ráðstafað tíma sínum sjálf. Það getum við gert vegna þess að Ríkisútvarpið er fjölmiðill sem á að gegna þessum lýðræðislegu og almannahagsmuna sjónarmiðum en er ekki rekinn eins og fjölmiðill í einkaeign.

Mig langar að koma inn á atriði sem snýr að hlutverki Ríkisútvarpsins eins og það er skilgreint í frumvarpinu. Þar kemur meðal annars fram, í 2. lið undir Hlutverk og skyldur Ríkisútvarpsins, með leyfi frú forseta:

„Ríkisútvarpið skal framleiða og miðla vönduðu og fjölbreyttu efni með mismunandi tæknilegum aðferðum til allra landsmanna óháð búsetu. Ríkisútvarpið skal gera ráðstafanir til að hægt sé að flytja fréttir og framleiða efni utan höfuðborgarsvæðisins með fastri starfsemi á völdum svæðum.“

Ég held að mjög mikilvægt sé að Ríkisútvarpið móti sér stefnu til framtíðar hvað varðar fréttaflutning af öllu landinu og ég held að það sé líka mikilvægt að þar verði gefið svolítið í. Við höfum séð það og manni finnst maður hafa fundið það á undanförnum árum og áratugum að fréttum sem berast af öllu landinu hafi fækkað. Þetta er ekki sagt í einhverjum ásökunum gagnvart einstökum fréttamönnum eða öðru slíku, en það á að vera hlutverk Ríkisútvarpsins að flytja fréttir víðs vegar að af landinu og það er áhyggjuefni þegar við höfum horft upp á það að starfsemi Ríkisútvarpsins vítt og breitt um landið hefur verið að dragast saman. Þetta höfum við séð meðal annars í fréttaflutningi af dreifbýlli svæðum, hann er ekki jafndjúpur, það er ekki verið að sinna honum með sama hætti og var og þetta hefur gríðarlega mikil áhrif.

Mjög mikilvægt er fyrir atvinnuuppbyggingu, fyrir byggðaþróun, fyrir fréttir sem sagðar eru af mannlífi af öllu landinu, að net Ríkisútvarpsins sé öflugt vítt og breitt um landið. Ég ætla að gagnrýna þetta frumvarp því ég hefði viljað sjá gengið lengra hvað þennan þátt snertir og að metnaðarfyllri áform hefðu verið til frambúðar um tryggja fréttaflutning af öllu landinu, hvernig ætti að hátta honum og með hvaða hætti sú umfjöllun ætti að vera. Ég hefði viljað sjá betur og dýpra útfærðar tillögur um hvernig ætti að ná þeim markmiðum sem þarna eru sett fram. Sem dæmi þá er víða í nágrannalöndum okkar viðurkennt mikilvægi þess að því hlutverki sé sinnt, að segja fréttir úr hinum dreifðu byggðum landsins. Í Noregi er viðurkennt að mjög mikilvægt sé að styðja við svokallaða héraðsfréttamiðla. Þar er bara ákveðinn stuðningur við þá, af því að menn viðurkenna að þeir eru hluti af byggðastefnu. Það er hluti af því að verið sé að segja fréttir af öllu landinu og Norðmenn eru búnir að komast að því að með því að segja fréttir þá er verið að ýta undir frekari uppbyggingu á þessum svæðum. Þetta eru oft á tíðum bara jákvæðar fréttir af atvinnuuppbyggingu, menningarlífi eða öðru slíku og menn hafa séð að þjóðhagslega hagkvæmt er í þessu tilviki fyrir Noreg að veita fjármuni í þetta vegna þess að þá verða til verðmæti á mörgum þessara svæða. Stuðlað er að verðmætauppbyggingu, atvinnuuppbyggingu og auðlindanýtingu sem skilar síðan tekjum fyrir þjóðarbúið í heild sinni. Ég hefði viljað sjá Ríkisútvarpið koma sterkara inn hvað þennan þátt snertir.

Aðeins hefur verið rætt um, og það kemur fram í nefndaráliti sem meiri hluti nefndarinnar sendir frá sér ásamt þingmönnunum Siv Friðleifsdóttur og Birgittu Jónsdóttur, að nefndin hafi einnig rætt um takmarkanir á auglýsingum, samanber 7. gr. frumvarpsins. Til þess að setja það í samhengi þá er talað um að þessar takmarkanir kunni að hafa í för með sér allt að 365 millj. kr. árlega tekjurýrnun eða sem svarar til 21% af samanlögðum auglýsinga- og kostunartekjum Ríkisútvarpsins og 7,3% af heildartekjum félagsins.

Þetta eru talsverðar skerðingar og auðvitað hefur verið gagnrýnt mjög mikið, sérstaklega af fjölmiðlum sem eru í einkarekstri, að Ríkisútvarpið sé á auglýsingamarkaði. Ég verð að segja að sjálfsagt er að setja inn takmarkanir á þessu, en ég hef verið í hópi þeirra sem vilja ekki ganga allt of langt. Ég held að Ríkisútvarpið eigi áfram að hafa heimildir til þess að afla sér auglýsingatekna og að við eigum samhliða að gera ríkar kröfur til þess að Ríkisútvarpið sinni menningarlegu hlutverki sínu.

Ég ætlaði líka að koma inn á aðra breytingartillögu sem hefur verið flutt við þetta mál, hún er flutt af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur og hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni. Hún hljóðar svo, með leyfi frú forseta:

„Minnst 20% af fjárveitingum til dagskrárgerðar Ríkisútvarpsins skal varið til kaupa á innlendu efni af sjálfstæðum framleiðendum.“

Það er vissulega göfugt markmið að Ríkisútvarpið kaupi í auknum mæli efni af innlendum framleiðendum, en menn hafa margir hverjir verið sammála um að þetta sé gríðarlega stórt stökk og að það muni hafa mjög djúpar afleiðingar í för með sér. Ég held að sjálfsagt væri að stefna að því að auka fjárveitingar til dagskrárgerðar sem Ríkisútvarpið kaupir af innlendum framleiðendum. Samhliða mundi það efla mjög alla grósku og starfsemi í innlendri framleiðslu á ýmsu dagskrárefni, hvort sem það er í formi leikinna þátta, spennuþátta, heimildarmynda og svo framvegis. Ég held að við ættum samt sem áður, áður en við tökum stökk eins og þetta, að vinna áætlun um hvernig við ætlum að auka þetta jafnt og þétt því heyrst hafa tölur um að þetta sé jafnvel þreföldun eða fjórföldun á því sem þegar er verið að kaupa og það er gríðarlega stórt skref að stíga.

Að öðru leyti er ýmislegt jákvætt við þetta frumvarp. Eins og ég byrjaði mál mitt á þá held ég að okkur sé mikilvægt að eiga fjölmiðil eins og Ríkisútvarpið. Við þurfum að leita leiða til þess að tryggja að það sé ávallt hlutlaust í umfjöllun sinni og tryggi umfjöllun af mönnum og málefnum, lýðræðislega nálgun á viðfangsefnið og sé ekki háð einum eða neinum eins og við höfum séð og sjáum með aðra fjölmiðla sem eru einkareknir og lúta þar af leiðandi ekki sömu lögmálum og Ríkisútvarpið á að gera. Þetta frumvarp er jákvætt skref í þá átt. Ríkisútvarpið á ekki að draga fram sjónarmið einstakra stjórnmálaflokka, einstaka fyrirtækis, fyrirtækjasamsteypa og svo framvegis. Þetta er fjölmiðill okkar allra og það er margt jákvætt í frumvarpinu, en einnig eru atriði sem er hægt að gagnrýna og mættu vera með öðrum hætti og ég hef rakið hluta þeirra í máli mínu.