141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[15:08]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir það með hv. þingmanni að full ástæða er til að skilgreina þrengra hvernig Ríkisútvarpið á að sinna því hlutverki. Ég gagnrýndi í ræðu minni áðan að ég hefði viljað sjá dýpri skilgreiningar eða nákvæmari útlistun á því hvernig við gætum náð því markmiði. Ég held að mikilvægt sé að Ríkisútvarpið sé með fasta starfsmenn á ákveðnum landsvæðum sem segja fréttir og kafa ofan í málefni. Við getum tekið sem dæmi það sem við horfum upp á núna varðandi héraðsfréttablöð. Það eru tvær gerðir héraðsfréttablaða sem berast vítt og breitt um landið. Það eru annars vegar héraðsfréttablöð sem eru í áskrift þar sem er kafað djúpt ofan í efnið og hins vegar héraðsfréttablöð sem eru fríblöð og byggjast oft og tíðum á því að kafa ekki eins djúpt í málefnin þótt vissulega séu á því ákveðnar undantekningar.

Þegar Ríkisútvarpið setur ekki ákveðið fjármagn í það og ekki er tryggt að á ákveðnum svæðum séu starfandi aðilar sem fjalla um mál er hættan alltaf sú að ekki sé farið eins djúpt ofan í viðkomandi mál og ellegar væri gert. Ég er ekki með það á tæru en það verður að koma upp sérstakri deild, ákveðnu rými eða öðru í dagskránni sem fjallar um landið allt eða tryggja einhvern veginn ákveðið hlutfall frétta eða dagskrárefnis af landinu öllu þar sem er farið dýpra ofan í tiltekin mál.

Í því samhengi vil ég benda á að ég vitnaði til Noregs í því sambandi. Þar í landi er mikilvægi þess að sagðar séu réttir frá hinum dreifðu byggðum viðurkennt. Manni hefur fundist undanfarin ár að dregið hafi úr fréttaflutningi af hinum dreifðu byggðum, að vísu þó með undantekningum (Forseti hringir.) þar sem ákveðnir sjónvarpsþættir fjalla sérstaklega um landsbyggðina og það er vel.