141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[16:14]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi er mikilvægt að ítreka það sem hv. þingmaður nefndi reyndar í lok ræðu sinnar, að óháð því hvaða kjördæmi maður býður sig fram í eru held ég flestir, bæði þingmenn af landsbyggðinni og þingmenn Reykjavíkur, mjög meðvitaðir um mikilvægi þess að fréttir berist sem víðast af landinu og að umræða um gang mála hér og þar um landið birtist í Ríkisútvarpinu. Það er nefnilega grundvallaratriði vegna þess að oft er því stillt upp þannig að fréttir utan af landi séu bara fyrir fólkið sem býr þar en það er öðru nær. Það hefur kannski þegar heyrt af hlutunum þegar þeir birtast í Ríkisútvarpinu en það er fólkið annars staðar á landinu sem heyrir af þeim fyrst þá.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns um hvort ekki sé ástæða til að setja í lögin að Ríkisútvarpinu beri að hafa starfsstöðvar á tilteknum stöðum sé ég ekkert sem mælir gegn því. Það mundi tryggja það sem við erum held ég flest sammála um að væri æskilegt. Hv. þingmaður hefur setið í ríkisstjórn í nokkur ár og því leyfi ég mér að spyrja hann: Hvers vegna hefur það ekki verið gert? Hvers vegna var ekki brugðist við þegar allar breytingar voru að ganga í garð, þegar verið var að draga úr þjónustunni á landsbyggðinni? Hvers vegna lét ríkisstjórnin það viðgangast?