141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[18:29]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég vil nú líka stíga varlega til jarðar í þessu vegna þess að á meðan umfang ríkisfjölmiðilsins er svo mikið á þessum markaði sem raun ber vitni getur það verið ákveðin skerðing gagnvart borgurum landsins að draga verulega úr þessum möguleika vegna þess að auglýsingar skipta gríðarlega miklu máli í okkar samfélagi. Þær eru skilaboð til borgara landsins og neytenda o.s.frv. Það verður líka að hafa í huga að þeir sem til dæmis kaupa sér ekki aðgang að frjálsum sjónvarpsstöðvum eða öðrum sjónvarpsstöðvum sitji við sama borð og aðrir þegar kemur að þessari upplýsingaveitu.

Hitt er svo annað sem ber mjög að varast og það er þessi sterka staða ríkisfjölmiðilsins. Hvernig tryggjum við að hann misnoti ekki sína sterku stöðu á markaði og dragi verulega máttinn úr hinum frjálsu útvarpsstöðvum og sjónvarpsstöðvum og tækifæri þeirra til að vaxa? Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að Ríkisútvarpið skuli fela dótturfélagi að selja birtingar á viðskiptaboðum í miðlum. Viðskiptaboð eru nýtt orð, þetta heita bara auglýsingar í mínum huga. Með öðrum orðum er verið að segja að Ríkisútvarpið eigi að hafa dótturfyrirtæki sem eigi að sjá um þessa sölu, væntanlega til að greina á milli hagsmuna af auglýsingum og annarri starfsemi félagsins.

Ég velti fyrir mér hvort ganga mætti enn lengra og bjóða hreinlega þessa pakka út, ákveðinn mínútufjölda á ákveðnum tímum. Hér er fjöldinn allur af auglýsingastofum og birtingafyrirtækjum sem starfar sjálfstætt. Þessi fyrirtæki gætu boðið í þessa pakka. Þær yrðu að vera opnar fyrir því að (Forseti hringir.) selja þetta öllum, um þetta yrðu að gilda skýrar reglur, en þarna væri skilið algerlega á milli. En að loka alveg fyrir auglýsingar í ríkisfjölmiðli (Forseti hringir.) hugnast mér ekki við þær aðstæður sem nú eru.