141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[18:37]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það ætti ekki að dyljast neinum að málið sem er til umræðu er mjög mikilvægt. Fjölmiðlar almennt eru mikilvægir en auðvitað eru rök fyrir því að sá fjölmiðill sem ríkið ákveður að reka sé sérstaklega mikilvægur, í það minnsta þurfa að vera mikilvæg og veigamikil rök fyrir því að ríkið reki sérstakan fjölmiðil.

Þegar Ríkisútvarpið hóf starfsemi sína mátti færa fyrir því gild rök. Það var nauðsynlegt að ríkisvaldið tæki verkefnið að sér vegna þess að sennilega væri ekki á færi einkaaðila að byggja upp dreifikerfi sem næði yfir allt land og halda úti samfelldri dagskrá og þurfti ríkisvaldið að grípa inn í til að tryggja öllum íbúum landsins aðgang að slíkum fjölmiðli.

Stóra spurningin sem við stöndum frammi fyrir er hvort enn séu nægjanleg rök fyrir því að ríkisvaldið reki fjölmiðil. Við skulum taka eftir því að um er að ræða ríkisútvarp. Þótt gjarnan sé talað um miðil í þjóðarþágu eða þjóðarmiðil er það svo að um er að ræða Ríkisútvarpið. Ég velti því auðvitað upp, og hef lengi velt því fyrir mér, hvernig við eigum að halda á því máli í ljósi þeirra tæknibreytinga sem hafa orðið þegar kemur að miðlun frétta, afþreyingarefnis og annars sem Ríkisútvarpið fæst við.

Ég held að alveg ljóst sé að á næstu árum og áratugum mun þeirri tækni og þeirri tæknibyltingu fleyta mjög fram sem við höfum orðið vitni að í þeim málum á undanförnum árum og þróunin mun einungis verða hraðari. Það er kannski tvennt sem skiptir verulega miklu máli. Það er annars vegar dreifigetan, dreifing efnis og aðgengi almennings að efni, og hins vegar sú staðreynd að sífellt auðveldara verður fyrir almenning að nálgast afþreyingarefni, ef svo má segja, hvaðanæva úr heiminum. Með öðrum orðum hlýtur fyrirkomulagið um að ríkisstofnunin Ríkisútvarpið taki til dæmis ákvarðanir um að sýna bíómyndir á laugardagskvöldum að vera fyrirkomulag sem mun ganga sér til húðar. Ég held að öruggt mál sé að fólk mun sjálft vilja velja sér slíka afþreyingu og mun ekki nálgast hana þannig að Ríkisútvarpið sem ríkisstofnun velji hana, velji bíómynd eða annað efni fyrir fólk að horfa á. Ég held að það sé alveg augljóst.

Ég hef heyrt þau rök hvað varðar hlutverk Ríkisútvarpsins að gæta verði þess að bjóða upp á fjölbreytta dagskrá, þar á meðal ýmist afþreyingarefni, til að vera valkostur sem t.d. alhliða sjónvarpsstöð. Ég held að málið snúi ekki þannig. Ég held að Ríkisútvarpið geti ekki horft til framtíðar og sagt að stofnunin muni geta gengið að því vísu að fá styrk af almannafé, t.d. til að kaupa til landsins almennt skemmtiefni til sýningar. Ég held að fólk muni gera það sjálft. Þangað er tækniþróunin augljóslega að leiða okkur.

Þá kemur að spurningunni: Hvers vegna ríkisútvarp? Er réttlætanlegt að reka Ríkisútvarpið og ef svo er hvernig á að gera það? Ég er þeirrar skoðunar að það sé til hlutverk fyrir ríkisútvarp en ég er ekki sammála því að nálgast málið eins og er gert í frumvarpinu. Í 3. gr., sem er hefur fyrirsögnina Fjölmiðlaþjónusta í almannaþágu, eru fjölmargir efnisliðir þar sem eru talin upp öll þau verkefni sem Ríkisútvarpið á að geta sinnt. Ég er þeirrar skoðunar að við séum á rangri leið með því að leggja það upp eins og er gert í frumvarpinu. Við erum á rangri leið vegna þess að með því að skilgreina hlutverk Ríkisútvarpsins of vítt reynum við hið ómögulega, ef svo má segja. Við ætlum að reyna hið ómögulega sem ég held að verði innan örfárra ára að búa til einhvers konar svona sjónvarpsdagskrá eða útvarpsdagskrá, það á kannski einkum við um sjónvarpsdagskrána, einhverja skemmtidagskrá sem opinberir starfsmenn leggja upp með fyrir almenning. Ég held að það verði ekki svona. Ég held að fólk muni velja sér efnið sjálft. Það gerist kannski ekki á næstu 2–3 árum en mun gerast. Ég tel það óumflýjanlegt.

Ég held að þess vegna væri miklu nær að við reyndum að nálgast hlutverk Ríkisútvarpsins aðeins öðruvísi en er gert í frumvarpinu, þrengja það og segja einfaldlega: Við viljum fyrst og síðast að Ríkisútvarpið sinni hinum menningarlega arfi þjóðarinnar og endurspegli um leið menningarlíf samtímans. Við viljum geta fengið fréttir í gengum Ríkisútvarpið af atburðum, hvort heldur sem er heima eða erlendis. Við viljum að aðgengi að Ríkisútvarpinu sé tryggt. Ég held reyndar að mjög muni draga úr mikilvægi Ríkisútvarpsins hvað það varðar eftir því sem tíminn líður og tel menningarhlutverkið langmikilvægast og enn og aftur sá þátturinn sem snýr að samtímanum. Ríkisútvarpið þarf að fanga og grípa þann samtíma sem við vélum um og koma honum til skila til þjóðarinnar og vera einhvers konar vettvangur, hvort sem við horfum til Sinfóníuhljómsveitar Íslands, leikhússins eða hvað það nú er sem við viljum tryggja sem flestum aðgang að, svo þeir sem geta ekki sótt tónleika eða leikhús í Reykjavík eigi möguleika á því að nálgast það í gegnum sjónvarp eða útvarp. Ég tel erfitt að ætlast til þess að einkaaðilar geti sinnt því. Með öðrum orðum er ég mótfallinn þeirri hugmynd að Ríkisútvarpið haldi áfram í þá átt að reyna að vera með almenna sjónvarpsstöð sem er í grundvallaratriðum ekkert öðruvísi en þær stöðvar sem eru á einkamarkaðnum. Ef við berum saman dagskrá ríkissjónvarpsins og Stöðvar 2, án þess að ég sé sérfræðingur í þeim málum, er ekki neinn stórkostlegur munur á dagskrá stöðvanna. Mér finnst alltaf ankannalegt að fylgjast með því þegar menn velta fyrir sér hversu mikið áhorf er á ríkissjónvarpið. Mér finnst að það eigi ekki að skipta neinu máli. Tilgangurinn í sjálfu sér er ekkert endilega að áhorfið sé gríðarlegt heldur að Ríkisútvarpið sinni hlutverki sínu, að til sé ákveðin tegund af efni sem ég tel að eigi erindi við þjóðina og aðrir geta ekki sinnt eins og þessi ríkisstofnun. Það verður að vera alveg sérstök röksemdafærsla fyrir því að við rekum slíka stofnun í nútímasamfélagi. Ég tel að rökin séu til staðar en þau snúa fyrst og fremst að menningar- og listaþættinum og svo má einnig færa rök fyrir fréttaþættinum. Ég vil þó sagt hafa í umfjölluninni að ég tel reyndar að alveg megi gefa sér þau rök að einkaaðilar geti klárað þann þáttinn, a.m.k. jafn vel og Ríkisútvarpið gerir. Ég held að hægt sé hægt að færa fyrir því veigamikil rök.

Ef við nálgumst hlutverkið svona og þrengjum með þessum hætti held ég að miklu líflegra og lífvænlegra sé hvað það varðar að afla fylgis við að hafa fyrirkomulagið sem við erum með áfram, að við höfum ríkisútvarp hvort sem við erum með eina eða tvær útvarpsrásir eða eina eða tvær sjónvarpsrásir, það skiptir ekki máli. Ég held að með þrengingunni, með því að afmarka betur en er gert í frumvarpinu sé líklegra að áfram verði breiður stuðningur við rekstur stofnunarinnar.

Ég verð að segja eins og er að þegar ég skoða lagatextann, skoða 3. gr. og löngu upptalninguna á því sem Ríkisútvarpið getur gert eða á að sinna og kem síðan að 4. gr. sem heitir Önnur starfsemi, og þá er búið að fara með víðtækum hætti yfir allt sem Ríkisútvarpið á að gera í 3. gr., bætist eftirfarandi við í 4. gr., með leyfi virðulegs forseta:

„Ríkisútvarpið skal stofna og reka dótturfélög, sem að fullu leyti eru í eigu þess, fyrir aðra starfsemi en þá sem kveðið er á um í 3. gr.“

Með öðrum orðum, ef Ríkisútvarpinu dytti í hug að gera eitthvað sem er ekki kveðið á um og heimilað í 3. gr. er hægt að gera það samkvæmt 4. gr. með því að setja upp sérstakt félag. Gott og vel, það er þrengra og aðeins erfiðara en er gert ráð fyrir í 3. gr. en það er sama. Mér finnst allt bera að sama brunni, að Ríkisútvarpið vilji hafa sem frjálsastar hendur hvað varðar efnistökin og hvert stofnunin á að stefna, varðandi þróun sína. Ég held að menn muni reka sig á það og sá árekstur verður harðari eftir því sem við reynum meira að gera það sem er lagt upp með í frumvarpinu. Menn munu reka sig á það í framtíðinni að almenningur sækir sér sína afþreyingu fram hjá Ríkisútvarpinu af því að framboð á afþreyingu mun koma alls staðar að, bíómyndir, framhaldsþættir og hvað það er allt saman. Það er liðinn tími nú þegar, og verður það svo sannarlega þegar fram líða stundir, að Ríkisútvarpið ákveði eða leggi til hvaða bíómyndir fólk horfir á á kvöldin. Það er tímaskekkja, virðulegi forseti.

Að lokum er það áhugavert sem er lagt upp með og er markmið 1. gr., að stefna eigi að félagslegri samheldni. Það var komið inn á í ræðu áður hversu áhugavert samfélag okkar er og þær breytingar sem hafa orðið á því. Við höfum farið frá því að vera með eina sjónvarpsstöð og eina útvarpsstöð yfir í að vera samfélag með fjöldann allan af útvarpsstöðvum auk aðgengis að efni erlendis frá. Það hefur áhrif á samfélag okkar og gerir það að verkum að samheldnin, ef svo má segja, verður minni hvað það varðar. Ég man að í æsku minni sáu allir meira og minna sömu sjónvarpsþættina, sömu sjónvarpsmyndirnar, sömu umræðuþættina og sömu fréttaþættina. Það má segja að samfélagið eða gerð samfélagsins þá hafi verið mun einsleitari en raunin er í dag og bilið mun bara aukast. Hver og einn mun geta fundið nákvæmlega þá afþreyingu sem hentar viðkomandi og það verður ekki í gegnum ríkissjónvarpið, svona er það bara. Við þurfum að þróa stofnunina þannig að hún sinni því hlutverki sem ég lýsti áðan og tel mikilvægt, sem snýr að menningu þjóðarinnar, sögu hennar, listum og auðvitað hinu alþjóðlega listaumhverfi ásamt fréttaþættinum, sem ég tel þó ekki eins mikilvægt og það sem ég var að lýsa. Ef okkur tekst ekki betur að setja ramma utan um það og skilgreina betur en er gert í frumvarpinu óttast ég að við munum innan ekki svo langs tíma þurfa að setjast aftur yfir frumvarp um Ríkisútvarpið til að bregðast við þeirri tækniþróun sem ég tel óumflýjanlega og mun gera það að verkum að markmiðin og umhverfið sem er sett upp hér mun svo sannarlega vera kallað barn síns tíma.