141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[19:59]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Annað atriði sem mig langar að heyra sjónarmið hv. þingmanns á eða fá skýrari svör um varðar stjórn félagsins. Ég ætla reyndar að byrja á að segja að ég er nokk sammála hv. þingmanni, mér finnst þetta vera afar flókin leið til að ná því markmiði sem væntanlega hefur verið að skapa einhverja armsfjarlægðarlengd frá stjórnmálunum. Mér finnst það vera býsna flókin leið og tek undir með hv. þingmanni að þar geti menn lent í stjórnsýslulegum pyttum.

Í 4. gr. um starfsemi dótturfélaganna kemur reyndar fram í lok hennar að „starfsemi dótturfélaga Ríkisútvarpsins samkvæmt þessari grein lýtur sömu löggjöf og starfsemi félaga í samkeppnisrekstri. Viðskipti Ríkisútvarpsins og dótturfélaga þess skulu fara fram á markaðslegum forsendum.

Tryggja skal ritstjórnarlegan aðskilnað milli Ríkisútvarpsins og dótturfélaga þess.“ En síðan kemur:

„Nánar skal kveða á um skipan stjórna í dótturfélögum Ríkisútvarpsins í samþykktum þess.“

Þar virðast menn ekki hafa sömu áhyggjur. Ég get tekið undir þau sjónarmið hv. þingmanns að það er svolítið sérkennilegt hvað menn leggja mikið á sig við að finna þessa fjarlægð frá stjórnmálunum í stjórn Ríkisútvarpsins en sleppa því þarna.

Lokaspurning mín er einfaldlega sú í ljósi þess hvernig frumvarpið er úr gerði gert hvort þingmaðurinn styðji það eins og það er. Og ef svo væri ekki, hvaða þættir það væru sem hann vildi helst sjá breytast.

Við framsóknarmenn viljum gjarnan standa vörð um Ríkisútvarpið á margan hátt eins og það er í dag, en auðvitað með þeim breytingum sem bæði ný tækni og tíðarandi krefst. En ég er ekki viss um að sú tækni né tíðarandi sé þegar til staðar þar sem stór hluti landsmanna hefur þennan eina fjölmiðil að sækja sér fjölmiðlaþjónustu til, bæði hvað varðar afþreyingu og fréttaflutning.