141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[20:53]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni kærlega fyrir ræðuna.

Talað hefur verið um það að á grundvelli mannréttindasáttmála Evrópu og úrskurðar Mannréttindadómstóls Evrópu liggi fyrir sértæk sjónarmið um mikilvægi þess að tryggja pólitíska og menningarlega fjölbreytni í fjölmiðlum. Í nefnd sem skilaði af sér árið 2004 voru lagðar fram nokkrar tillögur til þess að tryggja þetta. Síðan hefur nokkuð verið rifist um niðurstöðuna, en eins og ég hef skilið áherslur hæstv. menntamálaráðherra þá hefur hún verið að reyna að vinna að því að innleiða þetta eins og sá ráðherra sem sat í ráðuneytinu þar á undan og er samflokksmaður hv. þingmanns.

Talað hefur verið um mikilvægi þess að vera með fjölmiðil í almannaþágu sem þetta frumvarp gengur út á, að tryggja sem sagt öflugan fjölmiðil í almannaþágu. Talað hefur verið um að nota samkeppnislögin til þess að tryggja þessa fjölbreytni, möguleika varðandi leyfisveitingar og síðan sérstakar reglur um eignarhald á fjölmiðlum og útbreiðslu. Þetta eru allt tillögur sem við höfum séð koma inn í þingið á þessu kjörtímabili.

Það sem ég mundi vilja spyrja hv. þingmann er: Telur hann í ljósi reynslu hans af því sem gerðist hér í hruninu að það sé alltaf best að einkaaðilar sjái um einstaka markaði í öllum tilvikum?

Samkeppniseftirlitið hefur margítrekað og lagt fram gögn þess efnis að á nánast öllum mörkuðum á Íslandi ríkir fákeppni. Við sáum til dæmis þegar einkaaðilar tóku yfir fjármálamarkaðinn að þá endaði það með þeim hörmungum sem urðu 2008. Ég hef talið það vera mjög aðlaðandi kost, þótt Arion banki og Íslandsbanki séu núna í eigu „einkaaðila“, að vera samt áfram með Landsbankann í eigu ríkisins. Er það ekki svipað fyrirkomulag sem við eigum að sjá fyrir okkur varðandi fjölmiðlamarkaðinn til þess að tryggja einhverja samkeppni á markaðnum og fjölbreytni, (Forseti hringir.) bæði pólitíska og menningarlega fjölbreytni?