141. löggjafarþing — 101. fundur,  13. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[13:37]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég fagna því að við erum að fara að ljúka vinnu við þetta mál um RÚV. Ríkisútvarpið er önnur af tveimur mikilvægustu menningarstofnunum þjóðarinnar og það skiptir mjög miklu að lagaumgjörðin um RÚV sé góð og skilmerkileg. Ég hefði viljað sjá ítarlegri löggjöf um lýðræðishlutverk RÚV og skyldur RÚV til að fjalla um stjórnmál, stjórnmálaumræðu, kynningar á stjórnmálum, kynningar á stjórnmálaflokkum þó að vissulega sé stigið skref í rétta átt. Mér líst vel á breytingartillögu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur um að auka það hlutverk enn meira.

Ríkisútvarpið brást í síðustu alþingiskosningum í því að kynna þau framboð sem þá voru og það var frekar aum afsökun hjá útvarpsstjóra að segja bara: fyrirgefið þið. Það þarf að tryggja lýðræðislega umfjöllun RÚV í lögum þannig að það verði ekki háð forstjóra stofnunarinnar hverju sinni hvernig fjallað er um kosningar. Þess vegna mun ég styðja breytingartillögu Sivjar hér á eftir og hvet aðra þingmenn til að gera það líka.