141. löggjafarþing — 101. fundur,  13. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[13:52]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Hér hafa átt sér stað að mestu mjög málefnalegar umræður um Ríkisútvarpið. Ég vil lýsa því yfir og undirstrika að ég hef verið alla tíð þeirrar skoðunar að takmarka eig hlutverk Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Hér er verið að stíga nokkur skref í þá átt og því ber að fagna.

Ég vona að bæði hæstv. núverandi og verðandi hæstv. menntamálaráðherra og starfsfólk og forustufólk Ríkisútvarpsins hafi hlustað á þær ræður sem hér hafa verið fluttar því að mér finnst vera samhljómur að mestu um að við viljum hafa öflugt ríkisútvarp en við verðum engu að síður að hafa ríkisútvarp sem þorir að forgangsraða í þágu lýðræðislegrar umræðu, í þágu menningarhlutverks Ríkisútvarpsins og þess að aðrir miðlar geti samhliða Ríkisútvarpinu dafnað á markaði. Það er gríðarlega mikilvægt, m.a. fyrir lýðræðishlutverk Ríkisútvarpsins, að fleiri miðlar fái getað starfað á íslenskum markaði.