141. löggjafarþing — 102. fundur,  13. mars 2013.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:14]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Fyrir tæpum fjórum árum voru alþingiskosningar. Þær voru í kjölfar búsáhaldabyltingarinnar þar sem þúsundir Íslendinga mættu fyrir utan þinghúsið þann 20. janúar 2009 með potta og pönnur, ausur og sleifar og mótmæltu stjórnvöldum og ríkisstjórninni og hættu ekki fyrr en stjórnvöld höfðu sagt af sér. Við stóðum hér fyrir utan í sex daga og sex nætur og gerðum byltingu um miðjan íslenskan vetur, utan dyra, friðsama byltingu. Hver hefði nokkurn tímann trúað að það væri hægt á landinu okkar kalda?

Krafa búsáhaldabyltingarinnar var krafa um nýtt Ísland, um að hlutirnir yrðu gerðir öðruvísi, að breytt yrði um kúrs, að mark yrði tekið á fólkinu í landinu og að almannahagsmunir yrðu hafðir í fyrirrúmi. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sem kom í kjölfarið sýndi svo glöggt hvað hafði verið að, hvað hafði gerst og hverju þurfti að breyta. Hún var ekki vel séð af öllum. Talað var um að hún mundi þvælast fyrir okkur í nokkur ár og síðan yrði henni gleymt. Því miður nú fjórum árum síðar virðist það vera raunin. Ég horfi til baka yfir fjögur ár og velti fyrir mér hvað hefur ekki verið gert.

Verðtryggingin hefur ekki verið afnumin, mesti skaðvaldur íslenskra heimila undanfarinna 30 ára er enn þá í fullu fjöri með dyggum stuðningi ríkisstjórnarinnar. Skuldir heimilanna sem urðu til vegna fjárglæframanna og stjórnvalda sem vissu í hvað stefndi hafa ekki enn verið leiðréttar. Fjármálakerfið sem hrundi hefur verið endurreist meira og minna í sömu mynd. Alþingi sjálft og sú nefnd sem það setti á stofn til að fylgja eftir skýrslu rannsóknarnefndar skilaði af sér ágætisályktunum en lagði líka til að fjórir ráðherrar yrðu ákærðir. Jábræður þeirra á þingi slógu skjaldborg um þrjá ráðherra af fjórum. Skammarlegasti dagur í sögu Alþingis, að mínu viti. Landsdómur dæmdi svo fyrrverandi forsætisráðherra. Það var ekki nóg, að mínu mati. Það var ekki uppgjör við hrunið. Forgangsröðunin síðan hefur verið sú að skuldir ríkissjóðs og vextir af þeim ganga fyrir, 90 milljarðar á ári fara í vaxtakostnað, skuldir sveitarfélaga og vextir af þeim. Blandaða leiðin, leið niðurskurðar og skattahækkana hefur einfaldlega mistekist. Stoðkerfi samfélagsins er að hrynja. Heilbrigðiskerfið, vegakerfið og fleira er á löminni.

Síðan var hér í þrígang komið með Icesave-málið af slíkum yfirgangi yfir þingið að brjálæði lá við. Og nú liggur fyrir kvótafrumvarp ríkisstjórnarinnar þar sem á að afhenda með nýtingarsamningum til 20 ára verðmætustu auðlind þjóðarinnar. Miðað við útflutningsverðmæti sjávarútvegsins á síðasta ári er um að ræða 5 þús. milljarða kr. tékka á einu bretti til stórútgerðarinnar á Íslandi.

Frú forseti. Undanfarin fjögur ár hafa verið ótrúleg sóun á tækifærum. Ef þau atriði sem ég taldi upp áðan, ef farið hefði verið í þau hinum megin frá hefði þjóðin öll fylgt ríkisstjórninni að málum. Hún hefði fylgt ríkisstjórninni við afnám verðtryggingarinnar, hún hefði fylgt ríkisstjórninni við lækkun á skuldum heimilanna, hún hefði fylgt ríkisstjórninni við Icesave en þau spiluðu rangt úr spilunum.

Þó eru uppi góð mál sem standa eftir í mínum huga sem vert er að minnast á því að ekki hefur allt verið slæmt sem gert hefur verið. Upp úr standa til dæmis þrepaskipt skattkerfi sem ég tel að hafi verið til mikilla bóta, ein hjúskaparlög, gríðarleg mannréttindi sem vert er að minnast á og viðurkenning á sjálfstæði Palestínu sem líka skipar okkur sérstakan sess í alþjóðasamfélaginu (Gripið fram í.)

Forseti. Eitt hundrað þingmál bíða afgreiðslu. Alþingi virkar ekki, stjórnun þingstarfa er í lamasessi. Valda íslenskir þingmenn ekki lýðræðinu? Við sjáum hvernig fer á hverju ári. Löggjafarvaldið virkar ekki, það afgreiðir ekki þingmál, það er helber tilviljun sem ræður því hvaða mál verða að lögum og hver ekki. Þetta sjáum við glöggt í slátruninni á stjórnarskránni sem nýbúin er að eiga sér stað, sérhagsmunirnir ráða ferðinni, endurreisn bankanna var á forsendum bankanna og svo framvegis.

Í þessum ólgusjó hefur Hreyfingin reynt að nálgast mál á forsendum málanna sjálfra, talað gegn sérhagsmunum og fyrir almannahag. Það þarf róttækar breytingar í stjórnmálunum, það þarf að fara með fjórflokkinn eitthvert annað héðan af þingi. Það þarf nýtt fólk, það þarf nýja flokka.

Ég mun í komandi kosningum taka þátt í stjórnmálum undir merkjum Dögunar. Þar hefur fólk sameinast sem vill alvörubreytingar. Dögun verður með framboð í öllum kjördæmum. Konur leiða listann í fjórum kjördæmum af sex. Kjarnastefna Dögunar snýst um almannahag. Hún snýst um afnám verðtryggingar, hún snýst um skuldavanda heimilanna, hún snýst um víðtækar lýðræðisumbætur, persónukjör og beint lýðræði og hún snýst um nýja stjórnarskrá stjórnlagaráðs. Dögun er málefnaframboð en ekki framboð einstaklinga.

Kosningarnar fram undan, góðir landsmenn, eru einstakt tækifæri til breytinga og hugsanlega eina tækifærið sem við höfum á löngum tíma í framtíðinni. Ljóst er að fjórflokkurinn einn og sameinaður vinnur ekki með almannahag heldur gegn honum. Því er tímabært, landsmenn góðir, að kjósa eitthvað nýtt, nýtt fólk, nýja flokka, öðruvísi mun ekki neitt breytast hér.