141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

skattamál.

[11:03]
Horfa

Sigfús Karlsson (F):

Frú forseti. Í þessari viku hafa stór orð fallið, og jafnvel stærri orð, um skattamál, virðisaukaskatt og fleira. Í ljósi þeirrar umræðu langar mig að beina fyrirspurn til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um tekjutap ríkisins vegna samdráttar í virðisaukaskatti af innlendum vörum og þjónustu. Í umræðunni hér í gær, ef ég man rétt, frú forseti, spurði hv. þm. Vigdís Hauksdóttir um svör við beiðni um skýrslu en svartíminn er löngu liðinn án þess að svar hafi borist. Hún lagði þessa beiðni fram ásamt átta öðrum þingmönnum en þar var meðal annars fullyrt, og verið að spyrja um, að tekjutap ríkisins af virðisaukaskatti af innlendum vörum og þjónustu hafi verið rúmir 25 milljarðar frá árinu 2009 og þetta er samkvæmt ríkisreikningi. Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því hvort þetta sé ekki satt og rétt og einnig hvort hæstv. ráðherra sé nokkuð með það á takteinum hvert tapið hafi verið á árinu 2011.