141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[12:10]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni greinargóða framsögu með því máli sem hér er til umræðu. Það er gríðarlega mikið að vöxtum, fjöldi lagagreina sem kallar á að umræðan verður eðlilega dálítið knöpp í einnar mínútu andsvörum þannig að maður þarf þá að einbeita sér að því að draga saman meginatriðið í því sem maður vill gjarnan fá fram.

Það hafa verið mjög skiptar skoðanir um einstök atriði í þessu frumvarpi og jafnvel líka um frumvarpið í heild, eins og hér hefur komið fram. Það kom fram í máli hv. þingmanns að mjög deildar meiningar hafa sérstaklega verið meðal útivistarfélaga um þá þætti sem þeir telja að lúti að takmörkunum á því frelsi sem þeir hafa hingað til haft í náttúru Íslands.

Það er tvennt sem ég vil inna hv. þingmann eftir og vænti þess að hann geti gefið mér örstutt svör við sem lýtur annars vegar að (Forseti hringir.) kostnaði við frumvarpið, ég ætla að byrja á því —

Það eru tvær mínútur á klukkunni, hæstv. forseti, ég biðst afsökunar. Byrjum á kostnaðinum. Getur hv. þingmaður gefið mér í stuttu samandregnu máli yfirlit yfir hann?

(Forseti (UBK): Forseti minnir á að þar sem fjórir þingmenn hafa óskað eftir andsvari er ræðutíminn ein mínúta í hvert sinn.)