141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[19:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni ræðuna og bið hv. þingmann forláts á því að ég þurfti rétt andartak að bregða mér frá undir hluta ræðu hans og náði þess vegna ekki fyrri vangaveltunni sem hann bar sérstaklega undir mig. Ég bið hann þá í andsvari að taka þótt ekki væri nema örlítið brot af tíma sínum í að endurtaka hana.

Mér heyrðist eins og hann væri að tala um framandi lífverur og dýr en þetta er einmitt eitt af þeim málum sem hv. umhverfis- og samgöngunefnd hefur rætt sérstaklega og er með áform um að taka til nánari skoðunar að ábendingum þeirra stofnana sem mér heyrðist hv. þingmaður nefna.

Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa lagagrein sem ber yfirskriftina Umferð ríðandi manna:

„Þegar farið er ríðandi um landið skal fylgt skipulögðum reiðstígum eins og kostur er.

Á ferð um hálendi og önnur lítt gróin svæði skulu menn hafa tiltækt nægilegt aðflutt fóður fyrir hross sín.

Heimilt er mönnum, að fengnu leyfi eiganda eða rétthafa eignarlands þegar við á, að slá upp aðhöldum eða næturhólfum, enda valdi það ekki spjöllum á náttúru landsins. Á hálendi skal þeim valinn staður á ógrónu landi sé þess kostur.

Þar sem svo háttar til skal haft samráð við landverði eða umsjónaraðila á staðnum þegar farið er um eða dvalist á náttúruverndarsvæðum, sbr. IV. kafla.“

Svo er reglugerðarheimild til ráðherra.

Frú forseti. Þetta sem ég var að lesa er 16. gr. í núverandi náttúruverndarlögum frá 1999 sem hv. þáverandi þingmenn Ólafur Örn Haraldsson, Tómas Ingi Olrich o.fl. stóðu að því að setja. Hún er nákvæmlega eins og núverandi tillaga í frumvarpinu (Forseti hringir.) nema það er bætt inn einum málslið um að ekki megi valda náttúruspjöllum. Er það slæmt að mati hv. þingmanns?