141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[20:55]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég minni hv. þingmann á það að í upphafi ræðu minnar fagnaði ég sérstaklega því atriði sem laut að breytingum á 18. gr., um útvíkkun á almannaréttinum. Á sama tíma vakti ég athygli á því að það er líka verið að setja inn frekari hömlur við umferð gangandi fólks sem ég tel einsdæmi, þ.e. 19. gr., (Gripið fram í.) sem er ekki fordæmi fyrir annars staðar.

Varðandi málefni fatlaðs fólks er vissulega tekið réttmætt skref en ég lýsti því hér mjög skýrt að mér þætti stuttur spotti genginn. Ég tel fullfært að gera þetta með betri brag en þarna er lagt til, að setja fatlaðan einstakling í þá stöðu að þurfa að sækja um ferðaheimild til Umhverfisstofnunar um eigið land. Ég er hér með tölvupóst frá einstaklingi sem hann sendi á okkur þingmenn þar sem hann lýsir því að sér finnist það mikil minnkun að þurfa að sæta því að þurfa að sækja sérstaklega um það til Umhverfisstofnunar að fá að ferðast um sitt eigið land. Viðkomandi einstaklingur hefur verið bundinn í hjólastól frá 1978, ferðast víða erlendis og hvergi lent í vandræðum vegna þess. Það ber að fagna hverju skrefi sem stigið er, það hef ég gert, en mér þykir þetta mjög stutt skref og tel, og lýsti því ágætlega í ræðu minni, fulla getu til þess hjá hv. umhverfis- og samgöngunefnd að útfæra þennan þátt málsins til muna betur þannig að meiri sómi sé sýndur þeim kröfum sem uppi eru hjá fötluðum einstaklingum á Íslandi í þessum efnum.