141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[22:00]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við höldum áfram að ræða ný lög um náttúruvernd. Ég vil í upphafi máls míns halda aðeins áfram þar sem hv. þingmenn voru að skiptast á svörum og andsvörum um ferðafrelsi fatlaðra einstaklinga. Það er rétt að það komi hér fram að hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson, formaður nefndarinnar, kom með það áðan að kannski væri verið að reyna að bæta það. Það breytir því samt ekki að það getur ekki verið að fatlaðir þurfi að sækja um sérstakt leyfi og umsögn til Umhverfisstofnunar ætli þeir að ferðast um hálendið eða út í náttúruna.

Það gefur augaleið að þetta þarf að skoða betur og fara yfir vegna þess að það er ekki í takt við þá tíma sem við lifum núna og þær aðstæður að ef einhver ætlar að ferðast um hálendið þurfi hann að hafa margra daga fyrirvara á því, jafnvel vikna. Það segir sig sjálft að það gengur ekki.

Ég vil aðeins koma inn á athugasemd sem ég gerði í andsvörum áðan og snýr að Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Ég fór í fyrstu ræðu minni töluvert yfir umsögn frá Landssambandi veiðifélaga sem var mjög ítarleg og góð og margar góðar ábendingar þar sem mér finnst persónulega ekki hafa verið svarað nægilega mikið í breytingartillögum meiri hlutans. Ég staldra við athugasemdir sem eru gerðar við þá hættu sem snýr að laxveiðiánum með því að það þurfi að fylgjast betur með þeim húsbílum sem koma til landsins þannig að það komi ekki sníkjudýr eins og gerðist í Noregi. Þar eru núna 47 laxveiðiár laxlausar sem voru miklar og góðar laxveiðiár áður. Eins er með það sem snýr að því að það skuli ekki vera í náttúruverndinni. Á þetta bendir Landssamband veiðifélaga og segir að það væri mjög æskilegt að þetta væri í náttúruverndarlögunum. Eins bendir sambandið á nauðsyn þess að skylda hið opinbera í náttúruverndarlögunum, hvort heldur ríki eða sveitarfélög, til að sjá til þess að útbreiðsla á ref og mink verði ekki með þeim hætti að það sópi upp öllu fuglalífi á landinu.

Þetta hefði ég talið mjög áhugavert að setja inn í frumvarpið vegna þess að þar er fjallað um til að mynda votlendið og tilraunir til að endurheimta það og menn telja það grunn að því að fuglalíf geti þrifist. Síðan blasir við hið augljósa með þessi mál sem eru í algeru skötulíki og hafa verið það í nokkur ár, að refurinn kemur og étur alla fuglana þegar búið er að rækta upp landið svo fuglarnir hafi viðunandi skilyrði til að fjölga sér. Ég gef svo sem ekki mikið fyrir það vegna þess að þeir færa sig að sjálfsögðu til.

Þetta eru staðreyndirnar. Það er meira að segja þannig að í fjárlögum eru veittir fjármunir sem eru ekki einu sinni nýttir. Það kom fram í vinnslu við lokafjárlögin að þetta er ekki einu sinni nýtt þannig að það er lítið gert með þennan vágest í náttúru landsins. Það tel ég ekki gott.

Nú sé ég að hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson, formaður nefndarinnar, er kominn í salinn, var eflaust að hlusta niðri, og þá langar mig að bera upp þær spurningar sem ég óska eftir að hv. þingmaður bregðist hér við, enda einstaklega lipur og bóngóður maður.

Í fjárlagakafla frumvarpsins eru athugasemdir frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og eins frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, svohljóðandi, með leyfi virðulegs forseta:

„Samkvæmt mati umhverfis- og auðlindaráðuneytisins ríkir óvissa um kostnaðaráhrif frumvarpsins á sveitarfélögin …“

Þessu er ekki svarað nema með þeim hætti að gert sé ráð fyrir auknu samstarfi við þau í frumvarpinu. Það er ekkert fjallað meira um þetta en eins og við vitum voru samþykkt sveitarstjórnarlög 2012, sem var mikil samstaða um, þau unnin þverpólitískt í þinginu og í góðu samstarfi við sveitarstjórnarmenn og forustumenn þeirra í nefndinni, og í þeim kom fram að ekki væri heimilt að leggja fram frumvarp á Alþingi öðruvísi en að það væri kostnaðarreiknað ef það hefði áhrif á samskipti ríkis og sveitarfélaga, þ.e. reiknaður sá kostnaðarauki sem félli hugsanlega á sveitarfélögin. Þetta var sett sérstaklega í sveitarstjórnarlögin 2012 og þetta samkomulag hafði verið í gildi í töluvert langan tíma, í raun og veru skriflegt samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um að þetta yrði gert svona. Það gefur augaleið að þegar verið er að samþykkja lagafrumvörp sem fela í sér aukinn kostnað fyrir sveitarfélögin er mjög mikilvægt að sá kostnaður liggi fyrir.

Svo maður gæti allrar sanngirni er það ekkert frekar þessi ríkisstjórn en einhverjar aðrar sem stóðu ekki við þennan hluta. Það var farið dálítið frjálslega með þetta og sveitarfélögin höfðu kvartað mjög mikið undan þessu. Þess vegna var það ekki vandamálið og menn urðu sammála um að setja það inn í sveitarstjórnarlögin að kostnaðarreikna frumvörp og þar af leiðandi mætti ekki leggja fram frumvarp á Alþingi öðruvísi en gera það. Þetta er ein af þeim spurningum sem mig langar að velta upp við hv. formann umhverfis- og samgöngunefndar, þ.e. hvort þetta hafi ekki verið gert. Ég átta mig ekki alveg á því, það er ekki brugðist við því í meirihlutaálitinu, hvernig megi skilja þetta þannig að það er gríðarlega mikilvægt að þetta komi fram. Ef við erum nýbúin að ná þessu samkomulagi og hreinlega setja í lög að ekki megi leggja fram frumvarp nema kostnaðarreikna það er mjög mikilvægt að það komi fram hér hvort það hafi verið gert. Ég átta mig ekki á því og það kemur ekki fram hér. Þessi texti truflar mig töluvert mikið og það er mikilvægt að þetta komi fram í þessari umræðu.

Síðan eru tvær spurningar til viðbótar sem mig langar að velta upp við hv. þingmann. Þetta er mjög viðamikið mál og miklar breytingartillögur við það þannig að það er ekki alveg einfalt að átta sig á því og lesa það saman við allar umsagnirnar sem eru mjög margar, og margar mjög ítarlegar. Til að mynda fór ég í fyrri ræðu minni ítarlega yfir umsögn frá Landssambandi veiðifélaga. Vegna einnar umsagnarinnar sem ég átta mig ekki á og get ekki séð að sé búið að bregðast við langar mig að spyrja hv. þingmann hvort ég skil rétt þær ábendingar sem mér hafa borist um að utanvegaakstur sé túlkaður þannig að þótt menn keyri í fjöruborði þar sem gætir sjávarfalla flokkist það undir utanvegaakstur. Eins er með það að ef menn keyra með árfarvegi, sem menn riðu svo oft, koma svo að vaði og ætla sér að fara yfir og ef það gengur ekki keyra menn kannski upp eftir og niður eftir með ánni sjálfri á bakkanum, yfirleitt á sandeyrum, er það túlkað sem utanvegaakstur eins og þetta er í frumvarpinu? Ég átta mig ekki alveg á þessu og þess vegna þætti mér vænt um ef hv. þingmaður gæti svarað þessum spurningum.

Núna eru komnar einar 16 þús. undirskriftir frá útivistarfólki sem bendir okkur á undirskriftalista á ferdafrelsi.is og maður hlýtur að taka þær áskoranir mjög alvarlega. Því fólki sem ferðast mikið um landið, 4x4 og öllum þeim góðu samtökum, er mjög umhugað um náttúruvernd. Það fólk hefur verið í fararbroddi með að laga vegslóða, mér er kunnugt um það, hefur lagt í mikla sjálfboðavinnu, reynt að merkja vegslóðana, laga þá og gera margt sem er til mikillar fyrirmyndar. Starf þessa fólks verður auðvitað að meta. Það hefur sýnt og sannað í umgengni við náttúruna hversu vænt því þykir um hana en hefur þörf fyrir að ferðast um hana og það er mjög mikilvægt að hlusta eftir þeim röddum.

Nú sný ég mér að því sem kemur fram í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það leggur skýra áherslu á að það þingmál sem hér um ræðir, frumvarp til nýrra náttúruverndarlaga, sé algerlega ótækt, það sé óásættanlegt að það fái flýtiafgreiðslu á þeim stutta tíma sem er til þingloka. Það er mjög skiljanlegt vegna þess að sveitarfélögin eru hitt stjórnsýslustigið og auðvitað blasir við hvatinn til að nýta þá miklu og góðu vinnu sem umhverfis- og samgöngunefnd hefur unnið með sjö blaðsíðum af breytingartillögum. Það þarf að setja þær inn í þetta frumvarp eins og það er núna og senda síðan aftur til umsagnar. Það væru að mínu mati hin réttu vinnubrögð.

Síðan gerir sambandið líka athugasemd við að það skuli ekki eiga sæti í undirbúningsnefndinni sem sá um að semja frumvarpið. Ég verð að viðurkenna að það kom mér töluvert á óvart. Það blasir við öllum sem hugsa um af hverju það er, af því að þetta eru fulltrúar allra sveitarfélaga og ekki einhver pólitísk samtök. Sveitarstjórnarmenn gefa umsögn fyrir öll sveitarfélög í landinu þó að einstaka sveitarfélag hafi reyndar gefið eigin umsögn um málið. Þetta er ekki pólitískt plagg og í þessu eru bæði hægri sinnaðir og vinstri sinnaðir og alla vega og það er mjög mikilvægt að það verði skoðað.

Síðan staldra ég dálítið við og gat ekki séð að brugðist hefði verið við athugasemd frá sveitarfélögunum sem snýr að hlutverki náttúruverndarnefnda. Það er sláandi. Ég hef stundum tekið skiptinguna á fjármununum upp í fjárlagaumræðunni. Ég vil, með leyfi forseta, fá að vitna beint í þessa athugasemd frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga:

„Sambandið leggur sérstaka áherslu á að þingnefndin gaumgæfi afstöðu sveitarfélaga til þessa aukna hlutverks náttúruverndarnefnda, með hliðsjón af reynslu þeirra af störfum þessara nefnda. Í því sambandi telur sambandið mikilvægt að nefndin kalli eftir upplýsingum um hvernig staðið hefur verið að leiðbeiningum til þeirra náttúruverndarnefnda sem nú eru starfandi, af hálfu Umhverfisstofnunar, og skýrslugjöf nefndanna til Umhverfisstofnunar, samanber 3. mgr. 11. gr. laganna. Á grundvelli slíkra upplýsinga ætti að vera hægt að taka afstöðu til þess hvort rétt sé að fela nefndunum aukið lögbundið hlutverk og einnig hvaða kostnaðarauki kann að hljótast af slíkri breytingu.“

Þarna staldra ég aftur við kostnaðaraukann. Síðan verð ég að viðurkenna að ég hrökk aðeins við, þessari tilvitnun lýkur með að sambandið vekur athygli á því að ekki hefur enn verið sett reglugerð til að kveða nánar á um hlutverk þessara nefnda og tengsl þeirra við náttúrustofur, samanber 4. mgr. 11. gr. gildandi laga. Það er ekki búið að klára reglugerðina sem snýr að náttúruverndarnefndum og hlutverkum þeirra þótt það sé í núgildandi lögum. Þetta er töluvert sláandi.

Þegar maður skoðar það sem hefur verið að gerast kem ég að því sem ég hef gagnrýnt í fjárlagaumræðunni og áherslur til þessara ágætu náttúrustofa um allt land. Markmiðið var að færa starfið nær náttúrunni, ekki satt? Getum við ekki orðað það þannig? Náttúrustofunum er dreift um landið. Skoðum útgjöldin til þessara stofa. Hér er ég með frumvarp til fjárlaga árið 2013 og þar sést að á árinu 2011 var til dæmis Náttúrufræðistofnun með 462 milljónir en er komin núna í um 600 milljónir. Á sama tíma eru náttúrustofurnar samanlagt komnar úr 117 milljónum í 142 milljónir. Aukningin sem er tilgreind sérstaklega á náttúrustofunum milli ára upp á 16,5 milljónir er ný náttúrustofa á Höfn í Hornafirði, þ.e. þetta 16,5 milljóna framlag fer allt til reksturs nýrrar náttúrustofu á Höfn í Hornafirði. Það er skýringin á aukningunni og síðan er annað sem útskýrir af hverju allar náttúrustofurnar fá þessa aukningu.

Síðan staldrar maður við þegar kemur að auknum fjárheimildum til Náttúrufræðistofnunar Íslands. Ég er ekki að tala niður til þeirrar stofnunar, það má ekki skilja það þannig. Ég er eingöngu að gagnrýna hér af hverju sumir á þessu sviði fá miklu meira en aðrir. Þá kemur það fram í skýringartextanum með fjárlögunum að ástæðan er sú að það þarf að kortleggja vistkerfi og fuglalíf á Íslandi með það fyrir augum að auðkenna þau svæði sem þarfnast verndunar. Hluti fjárins fer í að fjölga starfsmönnum stofnunarinnar.

Þetta eru fín og göfug markmið en við hljótum að spyrja hvort við séum að nýta fjármagnið rétt þegar á að fjölga starfsmönnum á Náttúrufræðistofnun á suðvesturhorninu. Það gefur augaleið að ef sett væri meira fjármagn út í náttúrustofurnar sem er dreift um allt heila landið, hvort sem það eru Vestfirðir, Norðurland, Vesturland, Suðurland eða annars staðar, alveg hringinn í kringum landið, mundi það nýtast betur í þágu náttúrunnar. Við værum ekki að fjölga í höfuðborginni til að láta starfsfólkið þar sitja í bílum og keyra út á land. Væri þetta ekki skynsamlegri nálgun?

Ég næ ekki að fara öllu lengra inn í álitið frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, ég mun fara betur í það í næstu ræðum mínum en verð að segja í lok þessarar ræðu að auðvitað þarf, að mínu viti, að taka kostnaðaraukninguna. Ég sé reyndar að hv. umhverfis- og samgöngunefnd hefur greinilega lagt mikla vinnu í málið og það er þakkarvert, ég hef líka sagt það í þessari umræðu, en þarna er ranglega gert ráð fyrir því að kostnaðaraukinn við Umhverfisstofnun sé 32 milljónir. Eftir að nefndin hefur farið yfir hann sést að það eru 110 milljónir og síðan er metinn aukakostnaður hjá Náttúrufræðistofnun upp á 9 milljónir sem fer í 49 milljónir. Þetta kveikir mörg viðvörunarljós hjá mér, að það skuli vera þetta mikill munur á þeim tölum sem hér um ræðir, sérstaklega í ljósi þess að ekki er gert ráð fyrir þessum aukakostnaði í fjárlögunum, ekki nema hæstv. ráðherra ætli að forgangsraða einhvern veginn í verkefnum sínum sem hefur ekki komið fram í umræðunni. Manni ber því að líta svo á að ekki sé gert ráð fyrir þessum auknu fjárútlátum ríkissjóðs í fjárlögum. Er einhvern veginn alltaf sjálfgefið að það sé hægt að samþykkja hér lög án þess að fjárheimildir séu fyrir þeim í fjárlögum? Sá tími verður að fara að líða og þau vinnubrögð að hætta.