141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[11:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður talar um kjarkleysi gagnvart lífeyrissjóðunum. Ég held að ef við værum ekki að fara inn í kosningar hefði ég skilning á því að menn væru með einhvern töffaraskap í ræðustól. Þessi ríkisstjórn hefur tekið slag eftir slag. Við höfum endað fyrir dómstólum aftur og aftur með mál okkar og þær breytingar sem við höfum gert og verið að reyna að gera fyrir skuldug heimili. Það veit hv. þingmaður mætavel. Við höfum tekið slagi við lífeyrissjóðina, t.d. með skattlagningu á hreina eign þeirra til að fá til baka einhverja fjármuni, til þess að fjármagna skuldaúrræði fyrir heimilin í landinu. Hvernig fór það? Hv. þingmaður þekkir það líka mætavel, menn hóta okkur lögsóknum vegna þess. Við í Samfylkingunni höfum misst ágætisfélaga, sem eru til dæmis innan verkalýðshreyfingarinnar, fyrir borð vegna þeirra mála.

Hv. þingmaður þekkir þá sögu vel. Við höfum staðið í hverjum slagnum á fætur öðrum út af þeim málum og þar er ekkert undanskilið.

Hæstv. forseti. Ég kom upp út af því sama og hv. þingmaður Unnur Brá Konráðsdóttir á undan mér, til að ræða aðeins við hv. þingmann um tillögurnar um afnám verðtryggingar. Samfylkingin hefur sagt algjörlega skýrt að við viljum afnema verðtryggingu. Við höfum líka sagt hvernig og það tengist því að skipta um gjaldmiðil, við höfum sagt nákvæmlega hvernig það á að gerast. Það á að skipta um gjaldmiðil vegna þess að það er eina raunhæfa lausnin.

Hv. þingmaður ætti kannski að segja okkur, í stað þess að standa hér og segja að hinir og þessir hafi ekki haft neitt að segja um það í nefndinni sem hún fór sjálf fyrir, hvaða niðurstöðu hún komst að í þeirri vinnu fyrst það er verið að ásaka fólk um að bera rangar sakir á hana. Ég kalla eftir því að hún segi okkur hver hennar niðurstaða var. Hv. þingmaður veit líka jafn vel og ég að formaður hennar hefur sagt í ræðu og riti að lausn Framsóknarflokksins á afnámi verðtryggingarinnar er að skipa nefnd sem á að skila í lok árs. (Gripið fram í.) Það hefur ekkert annað komið fram. Hv. þingmaður hefur kjörið tækifæri núna til að segja okkur hvernig það á að gerast.