141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[18:53]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég er algjörlega sammála hv. þingmanni. Sú aðgreining sem ég talaði um áðan, sem kallast á norrænum tungumálum „universitet“ og „højskole“ og á ensku er „university“ og „college“, er alls ekki mælikvarði á gæðin en það getur verið mælikvarði á breiddina í náminu. Og það er tvímælalaust mælikvarði á breiddina í náminu í háskólunum þar sem boðið er upp á fjölmargar greinar. Við getum tekið gott dæmi. Einn af bestu skólum heims, MIT, eða Massachusetts Instistute of Technology, er ekki háskóli heldur mundi hann falla undir hina skilgreininguna.

Ég held að það sé mikilvægt að koma á mismunandi skilgreiningu á orðinu. Það gæti leitt til þess, nákvæmlega eins og hv. þingmaður segir, að stofnanir sem ekki eru mjög fjölmennar gætu komið fram með nýjungar í skólastarfi og einbeitt sér að öðrum hlutum sem koma mundu til hliðar við það sem gerist í háskólum eða „universiteter“ vegna þess að þar eru hlutirnir í mjög föstum skorðum og eru eins á milli landa, sbr. þrískiptinguna lektor, dósent, prófessor, sem er alþjóðleg flokkun.

Ég get því verið sammála hv. þingmanni um að það sé alls ekki mælikvarði á gæði heldur mælikvarði á sveigjanleika og annað slíkt.